Ríkisstjórnin reynir blekkingar: Innspýting í hagkerfið er 60 milljarðar króna en ekki 230 milljarðar króna.

22. mars 2020
19:40
Fréttir & pistlar

Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um 230 milljarða króna innspýtingu í hagkerfið eru ótrúlega ósvífnar þegar þess er gætt að innspýtingin nemur einungis 60 milljörðum króna en 170 milljarðar eru greiðslufrestir opinberra gjalda og ábyrgðir á lántökum.
Hvers vegna velur ríkisstjórnin að segja þjóðinni ósatt og beita blekkingum?

Það er einnig forkastanlegt að skattar og opinber gjöld lækki ekki. Það á einungis að fresta greiðslum hjá fyrirtækjum sem ráða ekki við skattlagninguna. Hvers vegna eru skattar ekki lækkaðir myndarlega eins og þjóðirnar í kringum okkur gera? Svona vinnubrögð jafngilda því að pissa í skóinn sinn.

Þeir sem bera ábyrgð á tillögum ríkisstjórnarinnar virðast ekki skynja nægjanlega þann bráðavanda sem við er að fást. Vandi þúsunda fyrirtækja er NÚNA. Í annarri verslun en matvöruverslun er nær engin sala, hótel og veitingastaðir eru að loka og matvælagreinin skreppur hratt saman svo dæmi séu nefnd. Þessir aðilar hafa lítið sem ekkert laust fé til að greiða rekstrarkostnað, hvorki laun, virðisaukaskatt eða önnur útgjöld.

Þess vegna ætti að vera forgangsmál að fresta greiðslu virðisaukaskatts nú í byrjun apríl hjá öllu atvinnulífinu til að tryggja strax rýmri lausafjárstöðu fyrirtækja.

Ef ríkisstjórnin skilur þetta ekki og velur áfram blekkingarleiðina verður höggið enn meira. Gjaldþrotin verða þá enn víðtækari og hellast yfir fyrr, atvunnuleysi verður enn meira en þyrfti og höggin á ríkissjóð þeim mun þyngri.

Einnig má spyrja: Hvar er nú aðhald Samtaka atvinnulífsins? Ekki verður annað séð af fjölmiðlum en að framkvæmdastjóri þeirra sé bullandi meðvirkur í blekkingarleik Katrínar, Bjarna og Sigurðar Inga.