Ríkis­stjórnin komin til að vera? Á alveg eins von á sam­starfi næstu árin

25. maí 2020
11:00
Fréttir & pistlar

Styrmir Gunnars­son, fyrr­verandi rit­stjóri Morgun­blaðsins, segir að sam­starf nú­verandi stjórnar­flokka hafi gengið svo vel það sem af er kjör­tíma­bilinu að spyrja megi hvort nýtt Við­reisnar­tíma­bil sé að ganga í garð.

Styrmir veltir þessu fyrir sér á blogg­síðu sinni en með Við­reisnar­tíma­bilinu á hann við sam­starf Al­þýðu­flokks og Sjálf­stæðis­flokks á árunum 1959 til 1971, sam­starf sem stóð í þrjú kjör­tíma­bil.

„Það sem ýtir undir að þetta gæti gerzt, er að jafn­framt hafa aug­ljós­lega skapast sterk tengsl við verka­lýðs­hreyfinguna. Það hefur verið ljóst að þau væru til staðar á milli for­sætis­ráð­herra og for­seta ASÍ, en þau hafa orðið traustari með ráðningu Höllu Gunnars­dóttur í starf fram­kvæmda­stjóra ASÍ en hún starfaði áður um skeið í for­sætis­ráðu­neytinu,“ segir Styrmir.

Hann bætir við að ekki fari á milli mála að Ás­mundur Einar Daða­son, fé­lags- og barna­mála­ráð­herra, hafi einnig byggt upp náin tengsl við verka­lýðs­for­ystuna og þá sér­stak­lega þann arm hennar sem hefur orðið til á síðustu mánuðum.

„Þegar þetta tvennt fer saman, gott sam­starf á milli stjórnar­flokkanna og hins vegar traust tengsl við verka­lýðs­hreyfinguna á erfiðum tímum hafa orðið til for­sendur fyrir því, að sam­starf þessara þriggja flokka geti spannað lengri tíma en kannski var búizt við í upp­hafi.
Í því felst á­kveðin kjöl­festa fyrir sam­fé­lagið.“