Ríkisstjórnin fallin samkvæmt Gallup – miðjustjórn í kortunum

Samkvæmt nýbirtri skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir RÚV er ríkisstjórnin fallin enda er fylgi Sjálfstæðisflokksins komið í 20 prósent og Vinstri græn hrynja niður í það sem flokkurinn hafði fyrir níu árum þegar hann var við það að þurrkast út eftir vinstri stjórnina 2009 til 2013.

VG mælist nú með átta prósent. Flokkurinn hefur tapað þriðjungi þess fylgis sem hann hlaut í Alþingiskosningunum í fyrrahaust. Þótt Framsókn sé í sókn, væri ríkisstjórnin fallin.

Ef kosið yrði núna og niðurstaðan reyndist vera í samræmi við könnun Gallups næði Sjálfstæðisflokkurinn 14 þingmönnum, tapaði þremur eins og Vinstri græn sem fengju nú 5 þingmenn í stað 8 í fyrra.

Framsókn næði 12 þingmönnum, Píratar fengju tæp 15 prósent greiddra atkvæða og tíu þingmenn, Samfylkingin væri með 14 prósent og 9 þingmenn, Viðreisn tæp tíu prósent og sex þingmenn, Flokkur fólksins næði fjórum mönnum,  Sósíalistar þremur en Miðflokkurinn fengi engan mann kjörinn.

Samkvæmt þessu væri ríkisstjórnin fallin. En það er mjög athyglisvert að sjá, miðað við þessar forsendur, að unnt væri að mynda miðjustjórn með 37 þingmenn að baki. Rétt eins og er að gerast í borgarstjórn Reykjavíkur.

Framsókn með 12 þingmenn, Samfylking með 9 þingmenn, Píratar 10 og Viðreisn sex þingmenn. Samtals 37 þingmanna meirihluti.

Það skyldi þó aldrei vera að nýji borgarstjórnarmeirihlutinn yrði vísbending um miðjusamstarf eftir næstu Alþingiskosningar!

- Ólafur Arnarson.