Ríkisstjórnin er fallin samkvæmt nýrri könnun

Ríkisstjórnin er fallin samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins sem gerð var nú um miðja viku. Fylgistap Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna heldur áfram, ef marka má niðurstöður könnunarinnar. Þessir tveir stjórnarflokkar njóta nú stuðnings samtals um 31 prósents kjósenda. Þetta er mikil breyting frá kosningunum fyrir fjórum árum, þegar flokkarnir hlutu 42 prósent atkvæða. Samkvæmt könnuninni hefur fjórðungur kjósenda þessara ríkisstjórnarflokka hefur snúið við þeim baki. Í þessari viku hafa birst fjórar skoðanakannanir sem allar sýna svipaðar meginniðurstöður.

Samkvæmt könnun Fréttablaðsins nýtur Sjálfstæðisflokkurinn stuðnings 21.3 prósent kjósenda og fengi 15 þingmenn kjörna, einum til tveimur fleiri en hann ætti að fá út á þetta fylgi. Samfylkingin er með 14.2% og fengi 9 þingmenn. Framsókn næði einnig 9 þingmönnum út á 12.6% stuðning, einum fleiri en flokkurinn ætti að fá vegna misvægis atkvæða milli þéttbýlis og dreifbýlis. Viðreisn nýtur stuðnings 11.6% kjósenda og fengi 8 þingmenn kjörna, Píratar fengju 11.5% og sjö menn kjörna, Vinstri græn fengju 10% og sex menn kjörna, Sósíalistaflokkur Íslands fengi 7.7% og 5 menn, Miðflokkurinn er með 5.9% og 4 menn. Flokkur fólksins mælist með 4.7% og næði ekki manni á þing. Eins og sjá má munar litlu að Flokkur fólksins fengi mann kjörinn og einnig má lítið út af bregða hjá Miðflokknum til að hann falli út af þingi.

Miðað við þessa útreikninga næðu flokkar núverandi vinstri stjórnar einungis 30 þingmönnum samtals og væri stjórnin því fallin.

Yrði þetta niðurstaða kosninganna kæmu nokkrar ríkisstjórnir til greina, þar á meðal miðjustjórn Framsóknar, Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata. Einnig gætu Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Viðreisn myndað meirihlutastjórn með 32 þingmenn á bak við sig. Fleiri kostir eru mögulegir.

- Ólafur Arnarson