Ríkisstjórnarflokkarnir njóta einungis stuðnings 40 prósent kjósenda í nýrri könnun.

25. maí 2020
21:09
Fréttir & pistlar

Fylgi stjórnarflokkanna mælist samtals aðeins 40,5 prósent í könnun MMR sem var tekin 19. til 25. Maí . Þeir fengju einungis 28 þingmenn kjörna ef kosið yrði nú en höfðu samtals 35 menn í síðustu kosningum.
Vinstri græn töpuðu fjórum mönnum en Framsókn þremur. Sjálfstæðisflokkur héldi sínum sextán mönnum.

Samkvæmt þessu væri ríkisstjórnin kolfallin. Það eru mikil tíðindi í ljósi þess að sögulega bæta sitjandi ríkisstjórnir jafnan við sig fylgi í kreppum, jafnvel miklu fylgi.

Miðað við könnun MMR næðu Píratar tíu þingmönnum, Samfylking níu, Viðreisn átta sem og Miðflokkurinn. Þannig væri stjórnarandstaðan með 35 þingmenn. Píratar og Viðreisn bæta við sig fjórum þingmönnum hvor flokkur.

Samkvæmt þessari könnun virðast kjósendur vera að missa trúnna á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra en flokkur hennar missir meira en þriðja hvern kjósanda sinn frá kosningunum árið 2017. Þá er staða Framsóknar einnig mjög veik og hlýtur að valda miklum vonbrigðum.

Bjarni Benediktsson er smám saman að verða raunverulegur leiðtogi ríkisstjórnarinnar samhliða því að Katrín gefur eftir og hverfur í skuggann.

Sumir ráðherrar reyna nú með áberandi hætti að komast í sviðsljós fjölmiðla af öllum tilefnum - sumum jafnvel býsna smáum - án þess að það hafi mælanleg áhrif á kjósendur.

Katrín Jakobsdóttir og fleiri hljóta senn að gera sér ljóst að fólk sér í gegnum skrumið.

Við kjósendur erum ekki eins vitlausir og við lítum út fyrir að vera!