Reynir varar við: Skáluðu í kampa­víni og sönkuðu að sér lista­verkum - Gammarnir snúa aftur

„Enn á ný munu gammarnir fara á kreik og voma yfir eigum al­mennings og fyrir­tækjum á vonar­völ. Þá er á­ríðandi að skyn­samir, vel meinandi stjórn­mála­menn gæti þess vand­lega að flokks­gæðingum verði ekki um­bunað á kostnað heiðar­legra borgara.“

Þetta segir Reynir Trausta­son, rit­stjóri Mann­lífs, í leiðara blaðsins í dag.

Reynir, sem var rit­stjóri DV þegar hrunið skall á haustið 2008, óttast að spillingin muni láta á sér kræla hér á landi nú þegar von er á mikilli efna­hags­niður­sveiflu vegna Co­vid-19 far­aldursins.

Pólitískir gæðingar röðuðu sér á jötuna

Reynir segir ljóst að næstu misserin muni mörg fyrir­tæki þurfa á hjálp að halda til að lifa kreppuna. Hann rifjar upp að þegar erfið­leikar steðjuðu að ís­lenskum sjávar­út­vegs­fyrir­tækjum hafi sú leið verið farin að stofnaðir voru tveir sjóðir, annars vegar at­vinnu­trygginga­sjóður og hins vegar hluta­fjár­sjóður. Af­leiðingarnar urðu stór­felld ríkis­væðing í sjávar­út­vegi.

„Þessar lausnir voru góðar og gildar á erfiðum tímum. Spillingin varð aftur á móti þegar fyrir­tækin réttu úr kútnum. Þá röðuðu pólitískir gæðingar sér á jötuna og sumir eignuðust fyrir­tæki eða hlut í fyrir­tækjum á út­sölu. Hið sama er uppi á teningnum núna en nú er það ferða­þjónustan,“ segir Reynir sem segir ljóst að mörg fyrir­tæki séu nú á vonar­völ.

„Sum eiga lífs­von en önnur munu deyja eða falla í eigu ríkisins. Þá þurfa menn að vanda sig og rjúfa tengslin á milli við­skipta og stjórn­mála,“ segir Reynir sem rifjar upp annað ný­legra dæmi eftir hrunið 2008.

„Þúsundir fjöl­skyldna voru sviptar heimilum sínum og sendar á Guð og gaddinn. Úti fyrir vomuðu hræ­fuglarnir. Græðgi og heimska stjórn­mála­manna varð til þess að risa­vaxin og upp­blásin gróða­fyrir­tæki komust yfir eigur hinna fá­tæku og for­smáðu.“

Sönkuðu að sér listaverkum

Gammarnir, sem Reynir nefnir, hafi fengið að kaupa í­búðir sem teknar höfðu verið af fólki sem burðaðist með ó­lög­leg gengis­lán. Þetta hafi sumpart gerst með hjálp spilltra líf­eyris­sjóða.

„Of­látungs­hátturinn varð yfir­þyrmandi. Hinir ný­ríku sönkuðu að sér lista­verkum á vinnu­stöðum sínum og skáluðu í kampa­víni á meðan al­menningur lifði skort. Vinir og vanda­menn fengu að njóta molanna af gnægtar­borði fast­eigna­kónganna. Sagan um Bjart í Sumar­húsum mynd­gerðist um allt land. Leigu­liðar þjáðust undir oki ný­ríkra leigu­sala. Allt í boði stjórn­mála­manna sem ýmist glímdu við skort á viti eða höfðu hag af því að færa eignir frá hinum snauðu yfir til þeirra ríku.“

Reynir á von á því að gammarnir fari aftur á kreik en þá sé mikil­vægt að vel meinandi stjórn­mála­menn standi í lappirnar. Flokks­gæðingum verði ekki um­bunað á kostnað borgaranna.

„Spillingin er fylgi­fiskur mann­kynsins og mun alltaf verða til staðar. En verk­efnið er að halda henni niðri eins og kostur er. Um­fram allt má ekki níðast á lítil­mögnum í krafti pólitískra á­hrifa og gráðugra ein­stak­linga. Við skulum láta eftir­leik Hrunsins okkur að kenningu verða og gæta þess að ill­gresið leggi ekki undir sig sam­fé­lagið með til­heyrandi harm­leikjum. Næstu mánuðina er mikil­vægt að standa vaktina og tryggja sem flestum skjól gegn gömmum og nöprum vindum. Látum upp­risuna eftir kreppu veirunnar markast af rétt­sýni, sam­úð og heiðar­leika. Mennskan á að verða í önd­vegi.“