Reynir segir yfir­völd halda upp­lýsingum frá al­menningi – Eins og fólki komi þetta ekki við

„Veiran sem herjar á heims­byggðina veldur miklu fleiri á­hrifum en sem nemur beinum veikindum og dauða. Fjöldi manns glímir við stöðugan ótta og lokar sig af. Sumir taka líf sitt,“ segir Reynir Trausta­son rit­stjóri í pistli á vef Mann­lífs.

Í pistlinum skrifar hann um að­gerðir yfir­valda vegna CO­VID-19 og það er skemmst frá því að segja að hann gerir at­huga­semdir við ýmis­legt. Reynir bendir á að tölur lög­reglu frá fyrri hluta ársins bendi til þess að sjálfs­vígum hafi fjölgað mikið, eða um tæp 70 prósent.

„Það þýðir að fleiri hafa fallið fyrir eigin hendi en þeir sem deyja bein­línis vegna sjúk­dómsins. 30 manns hafa svipt sig lífi það sem af er árinu 2020 en 18 manns, sam­kvæmt skráningu lög­reglu á sama tíma í fyrra. Þetta nemur nemur 67 prósenta aukningu. Sem dæmi um al­var­leika málsins er mann­fallið tveimur fleira en þeir sem dáið hafa af völdum Co­vid-19 hér­lendis,“ segir Reynir sem bætir við að Mann­líf hafi þrá­spurt land­lækni, lög­regluna og heil­brigðis­ráðu­neytið um þessa auknu tíðni en engin svör fengið. „Látið er sem al­menningi komi þetta ekki við,“ segir hann.

Reynir segir að fundir þrí­eykisins svo­kallaða séu stundum með skrýtnum brag og fátt standi eftir annað en tölur dagsins og að við séum öll al­manna­varnir.

„Yfir­völd leyna al­menning þeim veru­leika sem snýr að hliðar­á­hrifum Co­vid og forðast opin­bera um­ræðu. Þöggun ríkir. Þrí­eykinu, að þeim ó­löstuðum, þykir far­sælla að þylja upp tölur um hve margir hafi mælst með þetta og hitt en að ræða kjarna málsins. Mann­fall og sjálfs­víg er ekki til opin­berrar um­ræðu. Launung hefur einnig hvílt yfir smit­berum, sem með­vitað brjóta sótt­kví, og þeim stöðum sem hafa reynst vera gróðrar­stía fyrir veiruna.“

Í pistli sínum segir Reynir að þjóðin eigi að vera þátt­takandi í að móta stefnuna úr út kófinu og aftur til venju­legs lífs.

„Allar mögu­legar upp­lýsingar um á­hrif veirunnar, bein og ó­bein, eiga að vera uppi á borðum. Launungin þarf að víkja fyrir hrein­skilni. Geisla­með­ferðin sem þjóðin gengst undir má ekki verða til þess að deyða fleiri en sjálft meinið. Við verðum að fjar­lægja kýlin, og hreinsa sárin til að geta grætt þau og fikra okkur svo út úr því mið­alda­myrkri sem færst hefur yfir. Allt sem nú er að gerast mun ganga yfir. Þá þurfum við að gera upp málin.“

Hér er hægt að lesa pistil Reynis í heild sinni.