Reynir: „Með tár­votum augum sagði hann mér að Helgi Seljan væri slæmur maður“

27. október 2020
20:00
Fréttir & pistlar

Reynir Trausta­son, rit­stjóri Mann­lífs og göngu­garpur, kveðst vera með á­kveðið jóla­blæti sem brýst gjarnan fram um þetta leyti á ári hverju. Reynir segir frá þessu á skemmti­legan hátt eins og honum einum er lagið í færslu á Face­book.

„Þessu trúr var ég með risa­stóra jóla­mynd á flat­skjánum mínum og undur­fögur jóla­tón­list færir mér nauð­syn­lega ró í amstri dagsins. Skyndi­lega rofnaði út­sending frá Youtu­be og Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja, tók við af Bing Cros­by með White Crist­mas,“ segir Reynir.

„Hann horfði þráð­beint í augu mér og með angur­værum svip og döprum, ör­lítið tár­votum augum sagði hann mér að Helgi Seljan væri slæmur maður. Svo kom Björg­ólfur stað­gengill hans og stað­festi þetta með Helga. Sam­herjarnir eru búnir að koma sér fyrir í jóla­lögunum mínum. Og það er sama hvað ég spóla. Þeir koma aftur og aftur eins og sending að handan.“

Eins og kunnugt er hefur Sam­herji verið í her­ferð undan­farnar vikur og hefur máls­vörnin gegn RÚV meðal annars birst í formi mynd­banda á YouTu­be. Ó­fáir for­eldrar hafa ef­laust orðið varir við að börn þeirra sitja stjörf fyrir framan sjón­varpið þegar Þor­steinn Már birtist skyndi­lega á skjánum. Börnin eru þó aug­ljós­lega ekki þau einu sem fá aug­lýsingarnar beint í æð eins og Reynir nefnir hér að framan.