Reynir gleymir aldrei hlátrinum: „Gjaldið sem feiti ein­stak­lingurinn greiðir“

Reynir Trausta­son, rit­stjóri Mann­lífs.is, ritar at­hyglis­verðan pistil á vef Mannlífs í dag þar sem hann gerir of­fitu að um­fjöllunar­efni sínu.

Í síðustu viku greindi Hring­braut frá því að Lára G. Sigurðar­dóttir, læknir, hafi ritað afar um­deildan pistil í bak­þönkum Frétta­blaðsins sem varð kveikjan að heitum um­ræðum á net­heimum. Tara Margrét Vil­hjálms­dóttir, for­maður Sam­taka um líkams­virðingu, út­húðaði meðal annars pistli Láru, líkt og Hringbraut gerði grein fyrir.

„Ég var feitt barn“

Nú hefur Reynir dembt sér í þessa sjóð­heitu um­ræðu með höfuðið á undan. Pistill hans hefst svona: „Ég var feitt barn. Það hafði sínar af­leiðingar. Við fitu­hlunkarnir urðum fyrir bæði beinu og ó­beinu að­kasti vegna þess að við féllum ekki inn í normið. Sumir upp­nefndu okkur. Í annan stað þá gátum við minna en hinir stæltu og snöggu,“ segir Reynir og heldur á­fram.

Hann gleymir því aldrei þegar hann brot­lenti á pungnum: „Þetta var ekki ein­göngu líkam­legt vanda­mál, heldur einnig and­legt. Þjáningin var sú að vera ekki eins og þessir mjóu. Ung­lingurinn var með lágt sjálfs­mat og sá ekki fyrir sér að geta nokkurn tímann lifað eðli­legu lífi. Ég fitnaði löngu áður en stór hluti þjóðarinnar komst á þann stað. Enn þann dag í dag man ég skömmina sem hlaust af því að vera of feitur. Og ég man eins og það hefði gerst í gær þegar ég reyndi að stökkva yfir leik­fimi­hestinn en brot­lenti á pungnum. Hlátur æfinga­fé­laganna berg­málar enn í gegnum ára­tugina,“ segir Reynir, greini­lega mikið niðri fyrir.

Áttaði sig á á­hrifum of­þyngdar

Reynir kveðst hafa viljað verða helmassaður þegar hann var yngri: „Í dag er ég enn að glíma við holda­farið. Þetta er eins og flóð og fjara. Mér telst til að á lífs­leiðinni hafi ég létt mig um 500 kíló í ei­lífri bar­áttu við að ná jafn­vægi. Framan af lífs­leiðinni hugsaði ég mest um að ná út­liti sem félli að kröfum sam­fé­lagsins. Ég vildi verða tálgaður og helst með six­pakk. Seinna upp­götvaði ég að það gat falið í sér dauðann að kjaga um með líkams­þyngd sem var langt frá kjör­þyngd. Það rann upp fyrir mér það ljós að lífið var að veði eða alla­vega vel­líðan á efri árum.“

Hver of­feitur ein­stak­lingur kosti ríkið mikla fjár­muni: „Það er meira en hálf öld síðan ég var feita barnið sem var smánað af sjálfu sér og öðrum. Nú er staðan sú að þriðji hver ein­stak­lingur á Ís­landi er of feitur. Þetta er met ef litið er til OECD-ríkjanna. Mörg dæmi eru um að fólk sé far­lama, langt um aldur fram. Fjöl­margir láta lífið löngu áður en það er tíma­bært. Kostnaður heil­brigðis­kerfisins og þar með sam­fé­lagsins er gríðar­legur. Það felst í því dýrkun á van­þekkingunni að halda því fram að það sé í lagi að vera of feitur. Kostnaðurinn vegna þess er himin­hár fyrir alla. Og gjaldið sem feiti ein­stak­lingurinn greiðir er skert hreyfi­geta og van­líðan,“ segir Reynir.

Ríkis­stjórnin bregðist við

Hann vill að við verðum góð við náungann og heimtar að­gerðir: „Hitt er annað mál að það er bæði rangt og ljótt að smána þá sem glíma við of­fitu. Réttara væri að rétta þeim hjálpar­hönd, með ein­hverjum hætti. Of­fitu­sjúk­lingurinn og alkó­hól­istinn eru ein­fald­lega að glíma við sjúk­dóma sem stór­skaðar þá eða drepur. Það þarf átak þjóðarinnar til að koma þessu fólki til bjargar. Fræðsla og hvatning í bland við hvers kyns lýð­heilsu­á­tak þurfa að vera mark­viss. Í rauninni ættu tvö stærstu stefnu­mál næstu ríkis­stjórnar að snúast um þennan mála­flokk og lofts­lags­málin. Það þýðir gríðar­lega á­herslu á for­varnir og að upp­lýsa fólk um leiðir til að leysa vandann. Þessi ríkis­stjórn hefur tæki­færi til að bregðast við skelfi­legu á­standi og jafn­framt að stika leiðina út úr vandanum. Að­gerðar­leysi er ekki í boði,“ segir Reynir og setur punktinn við þessa um­ræðu, í bili hið minnsta.