Reynir: Eftir átta tíma svefn eru krónurnar orðnar 900 þúsund

„Hinn venju­legi Ís­lendingur sem býr við kjör sem rétt duga til venju­legrar fram­færslu botnar ekkert í þessum kjörum hinna út­völdu. Í til­viki Sam­herja­barnanna þá taka þau til sín árs­laun lág­launa­fólks á hverjum sólar­hring.“

Þetta segir Reynir Trausta­son, rit­stjóri Mann­lífs, í leiðara blaðsins sem kom út í dag. Þar skrifar Reynir um þá á­kvörðun eig­enda Sam­herja að fram­selja hluta­bréfa­eign sína í Sam­herja hf. til barna sinna.

Reynir segir að auð­æfin sem börnin fá í sinn hlut nemi rúmum 60 milljörðum króna, en þess má geta að ítar­leg um­fjöllun er um málið í Mann­lífi í dag. Þau barnanna sem eignast mest fái 15 þúsund milljónir í sinn hlut.

„Þessi upp­hæð er svo svimandi há að erfitt er að gera sér grein fyrir henni,“ segir Reynir sem freistar þess að setja hlutina í sam­hengi.

„Til að setja hlutina í sam­hengi þá má reikna með að hvert barnanna fái ár­lega arð sem nemur um 1.300 milljónum króna. Í þessari nálgun hefur verið tekið til­lit til erfða­fjár­skatts. Það þýðir að á hverjum sólar­hring fær hvert og eitt barnanna sem nemur 3,5 milljónum króna í arð. Höfuð­stólinn haggast ekki. Þau fá 146 þúsund krónur á klukku­tímann, allan sólar­hringinn. Blessað kvóta­kerfið sem gerði börnin mín rík, gætu þeir sagt.“

Reynir segir að það sem truflar fólkið í landinu er sú stað­reynd að grunnur alls þessa auðs sé fiskurinn í sjónum. Reyndin sé sú að fyrir­tæki og einka­aðilar njóti arðs af auð­lindinni þó lög segi skýrt að fiski­stofnar á Ís­lands­miðum séu sam­eign þjóðarinnar.

„Hinn venju­legi Ís­lendingur sem býr við kjör sem rétt duga til venju­legrar fram­færslu botnar ekkert í þessum kjörum hinna út­völdu. Í til­viki Sam­herja­barnanna þá taka þau til sín árs­laun lág­launa­fólks á hverjum sólar­hring. Þegar sér­hvert barnanna leggur höfuð á koddann þá halda peningarnir á­fram að streyma inn. Eftir átta tíma svefn verða tekjurnar um 900 þúsund krónur.“

Reynir tekur ekkrt af stofn­endum Sam­herja og segir fyrir­tækið hafa byggst upp á dugnaði og elju­semi. Ekki sé við per­sónur og leik­endur að sakast.

„Sam­herja­frændur hafa lengst af staðið sig vel í rekstri þótt seinna hafi gefið á bátinn. Þeir nýttu sér þá þjóðar­gjöf sem Al­þingi Ís­lendinga færði þeim og urðu mold­ríkir.“