Reykja­víkur­borg tapi 12 milljónum á mánuði á lúxus­hóteli: „Allt vegna getu­­leys­is hjá Þjóð­skrá“

Fasteignamat árið 2022 á fullbúnum fasteignum við Bryggju­götu og Reykja­stræti í Reykja­vík er að meðaltali 58,5% und­ir sölu­verði þeirra og heild­armis­mun­ur á fast­eigna­mati og sölu­verði um sex millj­arðar króna. Þetta segir Ragnar Thorarensen, löggiltur fasteignasali og sérfræðingur í fasteignamati í aðsendri grein í Mogganum. Hann segir að rangt frummat Þjóðskrár Íslands vera dýrkeypt mistök.

„Það gef­ur auga­leið að Reykja­vík­ur­borg tap­ar tug­um millj­óna í fast­eigna­gjöld­um og ríkið í stimp­il­gjöld­um af kaup­samn­ing­um vegna slæl­egra vinnu­bragða Þjóðskrár Íslands,“ segir Ragnar.

Ótrúleg afsökun

Lúxusíbúðir í Austurhöfn í Reykjavík seljast á margfalt hærra verði en fasteignamat. Til dæmis seldist 175 fer­metra íbúð við Bryggju­götu 6 á 223 millj­ón­ir króna þegar fast­eigna­mat var 39 millj­ón­ir króna.

Ragnar bendir á að Þjóðskrá Íslands eigi að sjá til þess að allar nýjar fasteignir séu metnar frummati innan tveggja mánaða frá því að upplýsingar um þær berast frá sveitarfélagi.

„Auðvitað get­ur verið ör­lítið snúið að finna gang­verð á nýj­ar óseld­ar fast­eign­ir en þó get­ur ásett verð verið góð vís­bend­ing um hvert markaðsvirðið kunni að vera. Það verður að gera þá kröfu til Þjóðskrár Íslands að hún fylg­ist með markaðnum og skili af sér frummati sem er ná­lægt sölu­verði og skekkj­an sé ekki meiri en 10% frá sölu­verðinu,“ tekur Ragnar fram.

Reykjavík Edition Marriott hótelið hefur þegar verið tekið í notkun.

Hann segir það vekja stórfurðu að verslunarhúsnæði og glænýjar randýrar íbúðir við Bryggjugötu og Reykjastræti á dýrasta stað í borginni fái fasteiganmat tugum prósentum undir söluverði.

„Þegar Þjóðskrá Íslands var spurð af blaðamanni hverju þetta lága mat sætti kom svar sem var á þá leið að eng­ir kaup­samn­ing­ar hefðu verið fyr­ir hendi við frummatið og því væri matið svona miklu lægra. Þetta er al­veg ótrú­leg af­sök­un,“ segir Ragnar og veltir fyrir sér hvort starfsmenn Þjóðskrár hafi enga reynslu í fasteignamati.

„Svona hrika­lega mik­il skekkja sýn­ir al­gjört kunn­áttu- og metnaðarleysi í vinnu­brögðum,“ segir Ragnar.

Reykjavíkurborg tapar 12 milljónum á hverjum mánuði

Edition-hótelið við Austurhöfn var tekið í notkun í fyrra en samkvæmt lögum á að vera komið húsmat þar sem hótelið hefur verið tekið í notkun. Ragnar segir að enn sé bara lóðarmat á því sem þýði mikið tap fyrir Reykjavíkurborg.

„Það er mjög var­lega áætlað að Reykja­vík­ur­borg sé að tapa í fast­eigna­gjöld­um bara á hót­el­inu rúm­um 12 millj­ón­um á hverj­um mánuði meðan ekki er komið fullt mat á það. Allt vegna getu­leys­is hjá Þjóðskrá Íslands við að setja á rétt fast­eigna­mat,“ segir Ragnar.

„Hvernig í ver­öld­inni stend­ur á því að eft­ir því sem eign­ir eru dýr­ari þeim mun lægra verður fast­eigna­matið hlut­falls­lega hjá Þjóðskrá Íslands? Af hverju á fast­eigna­eig­andi í meðal­fa­st­eign­inni að greiða fast­eigna­gjöld af nán­ast réttu kaup­verði á meðan hinir efna­meiri, sem kaupa dýr­ustu fast­eign­irn­ar, greiða kannski helm­ing af réttu virði í fast­eigna­gjöld?“

Segir Ragnar ljóst að Þjóðskrá sinni ekki lögbundnu hlutverki sínu um að vera með fasteignamat sem endurspegli markaðinn.

„Við get­um tekið sem dæmi ný­leg kaup á ein­býl­is­húsi við Ægisíðu. Kaup­verðið 420 millj­ón­ir en fast­eigna­matið 220 millj­ón­ir! Það er ljóst að Þjóðskrá Íslands sinn­ir ekki lög­bundnu hlut­verki sínu um að vera með fast­eigna­mat sem end­ur­spegl­ar gang­v­irði á markaði og að þeir sem eiga dýr­ari fast­eign­ir greiða hlut­falls­lega mun minna í fast­eigna­gjöld en aðrir.“

Fleiri fréttir