„Rekstraraðilar í miðborginni ættu að auglýsa sig meira, minna á sig og hvetja fólk til að koma og njóta þess sem uppá er boðið."

3. júlí 2020
20:47
Fréttir & pistlar

Felix Bergsson vekur athygli á því í færslu á Facebook síðu sinni hversu lítið rekstraraðilar í miðborginni auglýsi sig. Hann segir að úr þess verði að bæta og um leið væri hægt að hvetja fólk til að koma og njóta þess sem uppá er boðið í miðborg Reykjavíkur.

„Í gær hjóluðum við Baldur minn í bæinn, fórum í sund í Sundhöllinni, hjóluðum svo niður Laugaveginn og borðuðum hrikalega góðan kvöldmat með vinum á Public House. Þetta var dásamlegt, fullt af fólki á ferli, vinir og kunningjar og Reykjavík eins og hún gerist best."

„Það sem vakti mig til umhugsunar var hvers vegna rekstaraðilar í miðborginni nota ekki tækifærið á svona dögum til að auglýsa, minna á sig og hvetja fólk til að koma og njóta þess sem uppá er boðið. Það eina sem við heyrum frá háværum hópi hagsmunaaðila er að í miðborginni sé allt á heljarþröm. Af því að við fáum ekki að keyra á jeppunum okkar niður Laugaveginn! Talandi um að skjóta undan sér lappirnar!"

Hann telur að umræðan um miðborgina hafi verið svo neikvæð að fólk utan að landi telji sig ekki eiga neitt erindi í miðborginni. Þá bætir hann við að ógrynni sé af flottum verslunum, kaffihúsum og afþreygingu þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi og nóg sé af bílastæðum:

„Allt tal um að miðborgin sé leiðinleg og einsleit er komið frá einhverjum sem aldrei hafa þangað komið. Það eru líka einhver hundruðir bílastæða út um alla miðborg (of mörg myndu sumir segja) en samt heldur fólk vegna umræðunnar að það geti ekki komið á bílnum sínum og notið þess sem uppá er boðið. Ég hef átt samtöl við fólk sem kemur utan að landi og lætur sér ekki detta í hug að miðborgin sé eitthvað fyrir þau. Umræða þeirra sem þó eiga hagsmuna að gæta hefur bara verið einfaldlega alltof neikvæð. Hvað eru menn að pæla??"

Hann hvetur rekstraraðila í miðborginni til að fara í markaðsátak:

„Kringlan, Smáralind og allir hinir auglýsa og auglýsa fullt. Við þekkjum frasana. Kringlan - af öllu hjarta purrar Dóra Wonder í eyrað á okkur. Hér er Smáralind og nú er útsala segir stimamjúk rödd Smáralindar. Hvers vegna geta rekstaraðilar í miðborginni ekki tekið sig saman, staðið saman og gert slíkt hið sama? Purrað í eyrað á okkur og hvatt okkur með kostaboðum að koma og njóta lífsins og eyða nokkrum krónum?"