Rekin vegna aldurs: Þá kom Þórunn og réði hana í vinnu - „Reynsla þeirra eldri er ómetanleg“

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri ferðaskrifstofunnar Úrvals Útsýnar, segir það verulega óskynsamlegt að senda starfsfólk heim sökum aldurs því margt af því hafi mjög mikið að gefa.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í áhugaverðu viðtali við Þórunni sem birtist á vefnum Lifðu núna.

Í viðtalinu segir Þórunn að fyrirtæki hennar sé mjög sveigjanlegt þegar kemur að aldri starfsmanna og það sé ekki þannig að fólki sé kastað út á guð og gaddinn þegar það nær eftirlaunaaldri.

„Sumir sjá í hillingum að geta hætt að vinna og hafa loks tíma til að sinna hugðarefnum sínum og það er mjög gott en aðrir kjósa að fá að vinna áfram og meta félagslega þáttinn mjög mikinn. Við vinnum þá náið með hverjum og einum starfsmanni varðandi vinnutíma og hvaða verkefni eru í boði,“ segir hún en til dæmis er fyrirtækið nú með fjóra starfsmenn í vinnu sem hafa valið að vinna áfram.

Einn þeirra kemur til dæmis í vinnu einn dag í viku og sinnir ákveðnu verkefni. Svo eru nokkrir fararstjórar orðnir rúmlega sjötugir og segir Þórunn að það hafi gefist vel.

Í viðtalinu segist Þórunn til dæmis hafa frétt af starfsmanni í öðru fyrirtæki sem var látinn fara vegna aldurs.

„Þetta er kona sem ég vissi að hafði gífurlega reynslu svo ég hafði samband við hana og spurði hana hvort hún vildi ekki bara koma í fjörið til okkar. Hún hélt það nú og skellti sér í starfið með okkur sem er búið að vera rosalega gaman og hefur sannarlega skilað sér. Þrátt fyrir aldur hefur þessi starfsmaður þor, áhuga og vilja og hefur staðið sig algerlega hundrað prósent í starfi. Við erum mjög þakklát fyrir að hafa hana í okkar hópi á meðan henni hafði verið hafnað annars staðar sökum aldurs. Það gefur auga leið að reynsla þeirra eldri er ómetanleg og það er verulega óskynsamlegt að senda alla heim á einum tímapunkti því allt þetta fólk hefur mikið að gefa. Við þurfum bara að stilla saman getu þeirra og vilja við þarfir fyrirtækisins.“

Hér má lesa viðtalið við Þórunni í heild sinni.