Reif upp bíl­hurðina og ógnaði manni hennar með hníf: „Ég hélt að svona gerðist bara í út­löndum“

Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu hand­tók í gær karl­mann á þrí­tugs­aldri í vestur­bæ Reykja­víkur eftir að maðurinn hafði gert þrjár til­raunir til að ræna fólk vopnaður hníf. Engum varð líkam­lega meint vegna málsins en íbúi í vestur­bænum lýsir upp­lifun sinni af manninum á Face­book síðunni Vestur­bærinn.

í færslunni greinir kona frá því að hún og maðurinn hennar hafi verið stopp á rauðu ljósi á Hring­brautinni þegar maðurinn kom upp að þeim. Að hennar sögn var maðurinn í annar­legu á­standi þegar hann óð upp að bíl þeirra, reif upp hurðina með hníf á lofti og beindi hnífnum að hálsi mannsins.

„Okkur var hrika­lega brugðið,“ segir konan í færslunni og bætir við að maðurinn hafi verið mjög ógnandi og að hún hafi óttast að hann myndi stinga mann hennar. Þeim hafi þó tekist að ýta manninum í burtu frá bílnum og læsa hurðinni.

Að sögn konunnar var lög­regla komin innan skamms auk víkinga­sveitarinnar og fékk parið að vita skömmu síðar að maðurinn hafi náðst. Hún segir það greini­legt að það þurfi alltaf að læsa bílnum sínum þegar maður er á ferð, meira að segja á Ís­landi. „Ég hélt að svona gerðist bara í út­löndum.“

Að því er kemur fram í dag­bók lög­reglu veitta maðurinn ekki mót­spyrnu við hand­töku og hefur hann verið vistaður í fanga­geymslu í þágu rann­sóknar mannsins.