Rak upp stór augu þegar hann sá mynd­böndin í símanum

16. september 2020
12:55
Fréttir & pistlar

Ó­hætt er að segja að tví­tugur piltur í Malasíu, Zackrydz Rodzi, hafi rekið upp stór augu þegar hann fór í gegnum símann sinn á sunnu­dag. Daginn áður hafði Rodzi týnt símanum sínum.

Í frétt BBC segist Rodzi hafa talið að ein­hver hafi stolið símanum – sá grunur reyndist á rökum reistur þó söku­dólgurinn hafi ef til verið annar en hann bjóst við.

Á símanum voru myndir og mynd­bönd af apa sem virðist hafa tekið símann ó­frjálsri hendi í skjóli nætur. Á einu mynd­bandi virðist apinn vera að reyna að borða símann.

Rodzi er bú­settur í Batu Pahad í Johor-héraði í suður­hluta Malasíu en þannig vill til að fjöl­skrúðugt dýra­líf er skammt frá heimili hans – skóg­lendi þar sem apar sveifla sér á milli trjáa til dæmis.

Það var svo á sunnu­dag að faðir Rodzi gerði til­raun til að hringja í símann þegar hann var staddur á veröndinni fyrir utan hús fjöl­skyldunnar. Heyrði hann sím­hringinguna skammt frá og fann hann símann að lokum. Þegar Rodzi skoðaði símann fann hann um­rædd mynd­bönd.

Rodzi segist ekki vita til þess að apar hafi farið inn í hús á þessum slóðum, en hann grunar að apinn hafi laumað sér inn um opinn glugga og kippt símanum með sér.