Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, nýr borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir útspil Viðreisnar og bandalags þeirra við Pírata og Samfylkingu andlýðræðislegt. Sjálfstæðismenn geti vel unnið í meirihluta þrátt fyrir ólíkar skoðanir.
Ragnhildur lýsti þessari skoðun sinni í viðtali við Fréttablaðið í morgun.
Eins og greint var frá í gær var Sjálfstæðisflokkurinn nánast útilokaður úr meirihlutasamstarfi eftir að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, lýsti því yfir að Viðreisn myndi ekki brjóta raðir bandalags með Samfylkingu og Pírötum. Píratar hafa útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í borginni.
Ragnhildur segir við Fréttablaðið að útspil Viðreisnar komi henni spánskt fyrir sjónir.
„Vilji kjósenda var mjög skýr í þessum kosningum. Það er bara þannig. Þú getur hugsað þetta eins og hún gerir, sem er að halda fast í eitthvað bandalag sem var í raun og veru hafnað, eða þá að muna að þitt hlutverk sem kjörinn fulltrúi er ekki að vera bara í framboði fyrir fólkið sem þú vilt meina að kjósi þig heldur alla borgarbúa,“ segir Ragnhildur meðal annars.
Þórdís Lóa sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að 60 prósent kjósenda hefðu sett atkvæði sitt á flokka sem hefðu verið skýrir í stuðningi sínum við samgöngusáttmála og borgarlínu. Sjálfstæðisflokkur og Flokkur fólksins hefðu ekki verið skýrir í sínum svörum.
Sjálf sagðist Ragnhildur Alda í sinni prófkjörsbaráttu meðal annars vera á móti borgarlínu. Aðspurð hvort að það bitni nú á Sjálfstæðisflokknum í meirihlutaviðræðum hve ólíkar skoðanir sé að finna meðal borgarfulltrúa þeirra segist Ragnhildur ekki telja svo vera.
„Ég held ekki. Ég held þetta sé eftiráskýring Lóu, til að geta verið með útilokunarpólitík. Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið breiðfylking af ástæðu, við lifum eftir þeirri hugmyndafræði að það sé mikilvægt að taka umræðuna og að í krafti fjöldans náirðu bestu niðurstöðu,“ segir Ragnhildur.