Ragnari boðið í heim­sókn til Play: „Kom mér á ó­vart hversu langt þetta er komið“

22. maí 2020
11:52
Fréttir & pistlar

Ragnar Þór Ingólfs­son, for­maður VR, heim­sótti flug­fé­lagið Play á dögunum en boðið kom í kjöl­far heldur nei­kvæðra skrifa hans um fé­lagið.

Ragnar skrifaði færslu á Face­book á mánu­dag vegna fréttar Við­skipta­blaðsins þess efnis að Blá­fugl og Play gætu fyllt í skarðið færi svo að Icelandair yrði gjald­þrota.

Gerðu alvarlegar athugasemdir við færsluna

„Ég velti þeirri spurningu upp hvort þetta væri virki­lega leiðin sem við vildum fara að fá hér flug­fé­lög í skatta­skjóls­braski sem veigri sér ekki við að út­hýsa störfum til Indlans eða Filipps­eyja eða hverra landa sem réttindi og laun eru lægst fyrir mestu vinnuna? Setja svo restina á gervi­verk­töku í gegnum starfs­manna­leigur? Þó ekki sé út frá flug­öryggis­sjónar­miðum hlyti metnaður okkar að vera meiri en þetta.“

Ragnar segir að for­svars­menn Play hafi í kjöl­farið haft sam­band og gert al­var­legar at­huga­semdir við að vera kenndir við þá hátt­semi sem hann lýsti. Þá sér­stak­lega hvað varðar flug­öryggis­mál.

„Ég hafði sett mig nokkuð inn í við­skipta­módel Blá­fugls en viður­kenni að ég hafði ekki kynnt mér það sama hjá Play enda fé­lagið ekki flogið sína fyrstu ferð og því ein­göngu hægt að á­lykta að svo stöddu.“

Ragnar segir að úr hafi orðið að for­svars­menn Play buðu honum að koma í heim­sókn og kynnast fólkinu og hug­mynda­fræðinni á bak­við fé­lagið. Ragnar segist að sjálf­sögðu hafa þegið það boð enda ekki annað í boði en að standa fyrir máli sínu sé þess óskað. Heim­sóknin stóð yfir í um tvo klukku­tíma þar sem Ragnar sat með stjórn­endum og starfs­fólki og fór yfir málin. Hann segir að heim­sóknin hafi verið afar fróð­leg.

Langt komið

„Ekki grunaði mig hversu um­fangs­mikil starf­semin er orðin, metnaðurinn, og kjörin sem fé­lags­menn okkar eru á. Það kom mér á ó­vart hversu langt þetta er komið en um 40 manns starfa hjá fé­laginu, margir með mikla reynslu af flug­rekstri. Ég er ekki hafin yfir gagn­rýni og viður­kenni fús­lega ef ég hleyp á mig eða geri mis­tök. Eftir að hafa fundað með þessu kraft­mikla og metnaðar­fulla fólki varð mér ljóst að það voru mis­tök að tengja þessi tvö fé­lög, Blá­fugl (e. Bluebird Nor­dic) og Play, með þeim hætti sem ég gerði og harma ég það mjög.“

Ragnar segir að Play verði að njóta vafans að minnsta kosti þar til annað kemur í ljós.

„Ég spurði á fundinum hvort við gætum sann­reint kjör og kjara­samninga starfs­fólks fé­lagsins í ljósi ýmissa full­yrðinga sem við höfðum innan úr verka­lýðs­hreyfingunni og var það auð­sótt mál og ekkert sem bendir til þess að hægt sé að bendla fé­lagið við þau orð sem voru látin falla í færlsu minni þann 18.maí. “

Ragnar segist að lokum svo sannar­lega vona að mark­mið for­svars­manna Play um kjör þeirra sem munu starfa fyrir fé­lagið standi og að eignar­hald og fjár­mögnun fé­lagsins verði opin og gagn­sæ.

„Ég óska þessu dug­mikla fólki alls hins besta. Ég vona líka að Icelandair haldi velli og hér muni ríkja heiðar­leg sam­keppni um flug­sam­göngur, neyt­endum til mikilla hags­bóta og þúsundum starfa sem undir eru í ís­lensku sam­fé­lagi.“