Ragnar Þór: Skömmin er til að skila henni

„Skömmin er til að skila henni og nú er tæki­færið.“

Þannig hefst nýjasti pistill verka­lýðs­foringjans Ragnars Þórs Ingólfs­sonar, formanns VR, á Face­book. Þar gerir hann efndir eða fremur skorts á efndum ríkis­stjórnarinnar á Lífs­kjara­samningnum að um­fjöllunar­efni sínu en um það skrifaði hann grein sem birtist á Vísi í dag með fyrir­sögninni „Á­skorun“.

Hann segir það sé í „besta falli hálfur sann­leikur“ að þinginu hafi ekki tekist að klára ýmis lykil­mál er varða samninginn og vísar þar til orða Ás­mundar Einars Daða­sonar fé­lags­mála­ráð­herra um að málin hafi dagað uppi í með­ferð þingsins. „Þegar kerfis­bundið var unnið gegn því að þau yrðu kláruð og þeim haldið í gíslingu fjár­mála­ráðu­neytisins svo mánuðum skipti?“ spyr Ragnar Þór.

Það sé ekki skrýtið að ekki takist að ljúka slíkum málum í þinginu ef þeim er haldið frá því eða komi ekki til um­fjöllunar fyrr en skömmu fyrir þing­lok.

„Ég kalla því eftir að Ás­mundur komi hreint fram við kjós­endur um hvar or­sakir og af­leiðingar liggja. Ég kalla eftir því vegna þess að þú stóðst þig vel og dróst vagninn fyrir okkur í mörgum málum. Kjós­endur eiga skilið að vita hvar flösku­hálsinn og mót­staðan liggur. Við eigum rétt á að vita hvernig pólitíkin virkar og hverjir bera hina raun­veru­legu á­byrgð á svikum við kjós­endur og verka­lýðs­hreyfinguna.“

Ekki sé hægt að skrifa þetta á Co­vid-far­aldurinn, nægur tími hafi verið til að klára málin. „Það veistu vel,“ skrifar Ragnar Þór.