Ragnar Þór er brjálaður: Þing­menn og ráð­herrar fá veg­lega launa­hækkun

8. apríl 2020
09:42
Fréttir & pistlar

„Á meðan fram­línu­fólk í heil­brigðis­kerfinu, og í öðrum grunn­stoðum sam­fé­lagsins, eru samnings­laus og hafa jafn­vel verið skert í launum á meðan álag hefur aukist gríðar­lega gera em­bættis­menn vel við sig og ætla að taka sér launa­hækkanir sem nema ríf­lega þriðjungi af því sem þeir lægst launuðu fá fyrir 100% starf.“

Þetta segir Ragnar Þór Ingólfs­son, for­maður VR, í færslu á Face­book-síðu sinni. Þar fjallar hann um launa­hækkanir þing­manna, ráð­herra og ráðu­neytis­stjóra sem taka gildi í sumar. Vísir greindi frá málinu í morgun en þar kom fram að hækkunin sé aftur­virk til 1. janúar.

Í frétt Vísis kom fram að þing­farar­kaup hækki um 69 þúsund krónur, laun for­sætis­ráð­herra um 127 þúsund krónur, aðrir ráð­herrar um 115 þúsund krónur og ráðu­neytis­stjórar um rúmar 100 þúsund krónur. Til stóð að hækka laun for­seta Ís­lands um 188 þúsund krónur en Guðni Th. Jóhannes­son hefur af­þakkað þá hækkun.

Á dögunum var greint frá því að til stæði að frysta launa­hækkanir sem byggðu á launa­vísi­tölu Hag­stofunnar vegna ársins 2019. Ekki hafði komið til hækkunar launa­vísi­tölu fyrir árið 2018 og í frétt Vísis segir að það verði lagað í sumar.

„Á meðan 47 þúsund manns eru skráðir at­vinnu­lausir að hluta eða öllu leyti og hafa tekið á sig um­tals­verða kjara­skerðingu er það með öllu sið­laust að taka sér slíkar hækkanir í því á­standi sem nú ríkir og bara al­mennt séð sið­laust að taka sér meiri hækkun en þú ert til­búinn að skammta öðrum,“ segir Ragnar Þór.

Ragnar Þór tekur fram að VR, á­samt þing­manninum Jóni Þór Ólafs­syni, hafi stefnt ríkinu vegna á­kvarðana kjara­ráðs á sínum tíma. Bendir hann á að hækkanir á al­mennum markaði hafi numið 18 þúsund krónum frá og með 1. apríl síðast­liðnum.