Ragnar sofnaði yfir kvik­mynd í annað sinn á ævinni á dögunum

Einn besti kvik­mynda­gerðar­maður okkar Ís­lendinga, Ragnar Braga­son, varð fyrir þeirri ó­venju­legu reynslu á dögunum að sofna yfir kvik­mynd. „Ef ég byrja að horfa á kvik­mynd þá klára ég hana, hvort sem hún er góð eða lé­leg – en í þessu til­viki sofnaði ég,“ sagði Ragnar í Lestar­klefanum, menningar­þætti á Rás 1.

Myndin sem Ragnar vísar þarna til var frum­sýnd á Net­flix á dögunum og heitir I‘m Thinking of Ending Things. Charli­e Ka­uf­man, sem Ragnar heldur mikið upp á, er leik­stjóri myndarinnar sem hefur fengið blendna dóma. Sumum þykir hún æðis­leg, öðrum hörmu­leg á meðan öðrum finnst hún bæði hund­leiðin­leg og heillandi, eins og kvik­mynda­gagn­rýnanda Vísis.

Í við­talinu sagðist Ragnar hafa beðið spenntur eftir myndinni og raunar talið niður dagana fram að frum­sýningu. Var hann búinn að ýta á „play“ innan við hálf­tíma eftir að myndin kom inn á Net­flix.

„Svo gerist eitt­hvað undar­legt. Ég tapaði alveg þræðinum og ég sofnaði yfir myndinni, sem er í annað skiptið á ævinni sem ég sofna yfir kvik­mynd. Ég veit ekki hvort það sé bölvun eða hvað en ef ég byrja að horfa á kvik­mynd þá klára ég hana, hvort sem hún er góð eða lé­leg – en í þessu til­viki sofnaði ég. Þegar ég vaknaði, dá­lítið undrandi yfir því að hafa sofnað, þá kláraði ég hana nú,“ sagði Ragnar sem sagði að myndin sé ó­þarf­lega flókin.

Á vefnum Kvik­myndir.is segir að myndin sé 134 mínútur að lengd og er sögu­þráðurinn – á­huga­verður eða ekki – ein­hvern veginn svona:

„Þrátt fyrir að hafa efa­semdir um sam­bandið, þá fer ung kona á­samt kærasta sínum í ferða­lag á sveita­bæ fjöl­skyldu hans. Þar sem unga konan er föst á bænum þegar blind­bylur skellur á, á­samt for­eldrum kærastans, Jake, byrjar hún að efast um allt sem hún vissi eða skildi um kærastann, sjálfa sig, og heiminn.“