Ragnar segir að búið sé breyta bæjar­stjórninni í sauma­klúbb

Ragnar Sverris­son, kaup­maður á Akur­eyri, gefur ekki mikið fyrir á­kvörðun þeirra flokka sem eiga sæti í bæjar­stjórn Akur­eyrar að starfa saman að stjórn bæjarins út kjör­tíma­bilið.

Á­kvörðun um þetta var til­kynnt í há­deginu og er mark­miðið að mynda breiða sam­stöðu um stjórn sveitar­fé­lagsins vegna sér­stakra að­stæðna í rekstrinum. Fram að þessu höfðu Fram­sóknar­flokkur, Sam­fylking og L-listi myndað meiri­hluta og voru þessir flokkar með sex manna meiri­hluta gegn fimm manna minni­hluta Sjálf­stæðis­flokks, Mið­flokks og VG.

Ragnar, sem er lík­lega í hópi þekktustu íbúa Akur­eyrar, segir í færslu á Face­book-síðu sinni:

„Þá hefur bæjar­stjórnin okkar hér á Akur­eyri loks breyst í raun­veru­legan sauma­klúbb þar sem forðast er að tala um stefnur og bar­áttu­mál flokka og fram­boða og fram­kvæmd þeirra. Þar með er pólitík endan­lega út­hýst á þeim bæ og tryggt að ekkert raski ró bæjar­full­trúa næstu misseri,“ segir Ragnar sem hefur boðið fram krafta sína fyrir Sam­fylkinguna á síðustu árum.

Ragnar segir að fréttir um þetta sæti ekki miklum tíðindum, „að­eins stað­festing á því sem ég og fleiri hafa sagt að Sjálf­stæðis­flokkurinn hér í bæ ræður því sem hann vill ráða. Gildir þá einu hvort hann er í meiri­hluta eða ekki - vilji hans drottnar yfir öllu eins og þó nokkur stór­mál í bæjar­stjórn undan­farna mánuði sanna,“ segir Ragnar.

Hann segir að sjálf­stæðis­menn gefi tóninn og for­ystu­laus meiri­hlutinn hafi ekki kjark til annars en að spila með.

„Til þess að rétt­læta þessa "þjóð­stjórn" hefur veiran voða­lega verið virkjuð og henni kennt um allt saman á­samt kjara­samningum sem allir vissu um. Ekki virðist gamla meiri­hlutanum hafa hug­kvæmst að þenja út brjóst­kassann og nýta þetta tæki­færi til að hefja nýja og þrótt­mikla sókn til upp­byggingar í bænum eins og mörg önnur bæjar­fé­lög gera. Nei, þess í stað þykir betra að hjúfra sig endan­lega að í­haldinu og hlusta enn frekar eftir hvað það vill eða vill ekki. Það er svo fjarska­lega nota­legt.“