Ragnar ítrekar varnaðarorð sín: „Hérna er algert klúður í uppsiglingu“

Ragnar Freyr Ingvarsson, sérfræðingur í gigtar- og lyflækningum, tekur heilshugar undir með Gunnlaugi Sigurjónssyni, stjórnarformanni Læknavaktarinnar, sem hefur áhyggjur af tilfærslu faglegrar símaþjónustu læknavaktarinnar til heilsugæslunnar.

Gunnlaugur sagði í frétt Vísis í dag að ákvörðunin sendi kaldar kveðjur til starfsfólks en Læknavaktin neyddist til að segja upp 30 hjúkrunarfræðingum vegna þessarar ákvörðunar yfirvalda. Læknavaktin hefur haldið utan um þetta verkefni frá árinu 1986.

„Ég sagði það fyrir nokkrum vikum og ég segi það aftur - hérna er algert stjórnsýsluklúður í uppsiglingu! Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er ekki með mannskap til að sinna þessu risastóra og mikilvæga verkefni,“ segir Ragnar Freyr í færslu á Facebook-síðu sinni.

Tekur hann undir með Gunnlaugi sem segir í frétt Vísis:

„Við teljum að þetta mál sé allt vanreifað og við teljum að hvorki ráðuneytið, Sjúkratryggingar né heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins átti sig á eðli og umfangi verkefnisins og við óttumst að það séu mistök í uppsiglingu.“

Hann bætti við að fagleg símaþjónusta Læknavaktarinnar hefði verið opin allan sólarhringinn og þar hefði byggst upp mjög dýrmæt reynsla.

„Flestir hjúkrunarfræðingarnir okkar eru með áratuga reynslu í þessu og þetta er bara mjög erfitt starf og flókið og svona reynsla er ekki fengin á einni nóttu, ekki á einum mánuði og ekki einu ári þannig að við óttumst að það sé verið að kasta þarna gríðarlega verðmætri reynslu á glæ,“ sagði Gunnlaugur við Vísi.