Ragnar Ingólfsson hljóp illilega á sig

Formaður VR birti vanhugsuð skrif sín um helgina í þeim tilgangi að gera sitt til að bregða fæti fyrir Icelandair í harðri baráttu félagsins fyrir tilveru sinni. Svo virðist sem Ragnar vilji að félagið verði gjaldþrota.
Með því gengur hann þvert gegn hagsmunum mikils fjölda félagsmanna í VR og einnig flestra landsmanna.

En vert er að vekja athygli á að í sundurlausum skrifum Ragnars leyndist frétt sem ástæða er til að staldra við. Hann gekkst nú við því að reyna í krafti stöðu sinnar sem formaður VR að hafa áhrif á afstöðu og störf stjórnarmanna í þeim lífeyrissjóði sem VR velur stjórnarmenn í.
Þetta heitir á mannamáli ekkert annað en skuggastjórnun.

Ragnar hefur áður verið grunaður um skuggastjórnun gagnvart þeim stjórnarmönnum sem VR velur. En þetta er í fyrsta skipti sem hann viðurkennir brot sitt opinberlega.

Fjármálaeftirlitið hlýtur nú að láta til sín taka og kæra brot Ragnars því svona háttsemi er óheimil með öllu. Ástæða er til að fylgjast með viðbrögðum eftirlitsins.

Ragnar virðist alveg hafa misst tökin þegar forstjóri Icelandair benti á þá staðreynd að félagið ætti ekki framtíðina fyrir sér nema takast mætti að stórlækka alla kostnaðarliði næstu árin. Þar á meðal og ekki síst laun.

Honum datt þá helst í hug að væna stjórn félagsins um þann vanda sem upp er kominn vegna heimsfaraldurs sem skekur heimsbyggðina!

Loks sendi hann flugstéttunum baráttukveðjur í baráttunni gegn hagsmunum félagsins sem fólkið starfar hjá.

Í kjölfarið skrifuðu flugvirkjar undir 5 ára samning og flugmenn vinna að samningi.
Flugfreyjur munu væntanlega kjósa um fram komið tilboð félagsins.

En við fylgjumst með viðbrögðum fjármálaeftirlitsins við meintri skuggastjórnun formanns VR.