Ragnar Freyr vill skrúfa fyrir lekann strax: „Ég nenni ekki að ferðast innanhúss í sumar!“

Ragnar Freyr Ingvarsson, umsjónarlæknir COVID-19 göngudeildarinnar og sérfræðingur í gigtar- og lyflækningum, segir að landamærin séu gegndræp, veiran sleppi í gegn og valdi hópsmitum.

Ragnar gerði viðtal Morgunútvarpsins í gær við Runólf Pálsson, forstöðulækni á lyflækningasviði Landspítalans, og Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, að umtalsefni á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. Eins og flestir vita greindust mörg smit um helgina og eru þau rakin til manns sem virti ekki reglur um sóttkví, en sá hafði komið til landsins um síðustu mánaðamót.

Ragnar segir að við þurfum að gera upp við okkur hvort við viljum óbreytta nálgun sem þýðir fleiri smit, fleiri takmarkanir á okkar daglega lífi eða hvort við viljum reyna að skrúfa fyrir lekann.

„Er ekki hægt að hafa fólk í sóttkví í almennilegu eftirliti, rafrænu, eða með appi, kannski símtölum, eða banka upp á ef því er að skipta? Og ef það gengur ekki þá á fínu hóteli - þar sem hægt er að fara í göngutúr? Er skortur á lausum hótelrúmum?“

Ragnar segir að hann sé farinn að langa að gera ýmislegt nú þegar veiran hefur verið í samfélaginu í 14 mánuði.

„Mig langar í sund, í ræktina, fara út að borða, fara í bíó og fara í leikhús. Mig langar til að fjölskyldan mín og vinir mínir og allir hinir geti notið lífsins. Ég nenni ekki að ferðast innanhúss í sumar!“