Ragga Nagli les stjórn­völdum pistilinn: „Skammist ykkar!!!“

Sálfræðingurinn og einkaþjálfarinn Ragga Nagli las íslenskum stjórnvöldum pistilinn fyrir innflytjendastefnu þeirra í færslu á Facebook-síðu sinni í dag.

Í færslunni lýsir Ragga reynslu sinni af því að búa í Norðurbrú í Kaupmannahöfn, þar sem hlutfallslega flestir innflytjendur búa í Danmörku.

„Síðustu þrettán ár hef ég búið í fjölmenningarsamfélaginu hér,“ skrifar Ragga. „Í næstu götu er moska. Allt í kringum mig búa múslímskir innflytjendur. Konur með slæður. Menn í kirtlum. Börn með svarta lokka. Hörundsdökkt fólk. Fólk sem kom hingað í leit að betra lífi og skjóli fyrir hörmungum heimalands síns.“

Ragga segir reynslu sína af þessum nágrönnum sínum jákvæða og segir innflytjendur og flóttafólk hafa gert lífið í Danmörku betra. Þetta ber Ragga saman við innflytjendastefnu á Íslandi og sér í lagi brottvísun Hussein-fjölskyldunnar fyrr í vikunni.

„Á meðan þú lést lögreglu sitja fyrir ungum námsfúsum stúlkum af írönsku bergi svo þær myndu ekki óhreinka gangstéttar Reykjavíkur og taka pláss í framhaldsskóla, þá eru atvinnuauglýsingar sem fylla heilu doðrantana í leit að fólki til starfa,“ segir Ragga. „Þessi þjóð telur aðeins þrjúhundruð og eitthvað þúsund hræður en tekur á móti einni og hálfri miljón ferðamanna á ári. Okkur vantar fleiri vinnandi hendur á dekk.“

„Biðjum til Allah, Guðs, Búdda eða Þórs að þið snúið af villu ykkar vegar og grafið djúpt í iður sálarinnar eftir samkennd, samhyggð og samúð með þeim sem allra minnst mega sín. Skammist ykkar!!!“