Ragga bendir á sorglega staðreynd um karla: „Kelling. Hommi. Inga Sæland. Búhú... cry me a river“

Ragnhildur Þórðardóttir sálfræðingur, betur þekkt undir nafninu Ragga nagli, birtir reglulega athyglisverðar hugleiðingar á Facebook-síðu sinni. Í dag beinir hún sjónum sínum að andlegri heilsu karlmanna og bendir á nokkuð óhugnanlega staðreynd.

„40% karlmanna tala aldrei við neinn um sína andlegu heilsu. Á hverri mínútu deyr einn karlmaður af völdum sjálfsvígs,“ segir hún.

Ragga bendir á að það séu félagslega samþykkt viðbrögð að taka um magann þegar okkur er óglatt.

„Að brosa þegar þú færð góðar fréttir er félagslega samþykkt. Að taka hósta þegar hrekkur ofan í okkur er félagslega samþykkt Kona sem grætur þegar hún sigrar fegurðarsamkeppni er félagslega samþykkt. Allt eru þetta viðbrögð við merkjum frá líkamanum.

Sársauka. Gleði. Óþægindum. En karlmaður sem grætur er því miður ennþá á skjön við félagslega samþykkt norm. „Kelling. Hommi. Inga Sæland. Búhú... cry me a river. Samúðarsnökt”,“ segir Ragga og bætir við að tilfinningar séu upplýsingar frá líkamanum.

„Upplýsingar sem við bregðumst við á einhvern hátt. Til dæmis með að gráta. Grátur er losun. Losun á tilfinningum. Sorg. Reiði. Pirringi. Losun á streituhormónunum kortisóli og adrenalíni. En fyrst og fremst losun á spennu. Að sýna tilfinningar sínar opinberlega og losa um margra mánaða innri streitu og spennu með að fella tár er ekki merki um veiklyndi, sjónarspil eða aumingjaskap.Að hafa ekki áhyggjur af skoðunum annarra á eigin tilfinningatjáningu er þvert á móti merki um hugrekki, styrk og sjálfstraust.“

Ragga heldur áfram og spyr hvort hugrekki, dugur og þor hafi ekki þótt „karlmennskutákn“ í gegnum tíðina.

„Að bæla niður tilfinningaviðbrögð og að viðhalda yfirborðskenndri tilfinningastjórnun með að kyngja tilfinningum rænir þig tækifærinu að upplifa að fullu hamingjuna og gleðina og tengjast augnablikinu. Að fella tár, tala um tilfinningar og sýna vanlíðan er því merki um karlmennsku. Tékkaðu á vini þínum í kjötheimum og eigin persónu í staðinn fyrir að horfa bara á story hjá honum á Instagram,“ segir hún.