Hringbraut skrifar

Ráðherra vill skoða sölu á raforku í gegnum sæstreng - „var það ekki! auðvitað stóð þetta alltaf til“

16. febrúar 2020
21:39
Fréttir & pistlar

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og varaforseti ASÍ, eru ósáttir eftir frammistöðu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í Víglínunni á Stöð 2. Gunnar Bragi og Vilhjálmur deila frétt Viljans þar sem segir að ráðherrann vilji að kannaðir verði kostir þess að orkufyrirtækin selji raforku til annarra ríkja í gegnum sæstreng. Í frétt Viljans segir:

„Aðeins fyrir fáeinum mánuðum sögðu forystumenn ríkisstjórnarinnar í tengslum við innleiðingu þriðja orkupakkans, að engar líkur væru á því að slíkur strengur yrði lagður á næstunni.“

Þá er vitnað í Þórdísi Kolbrúnu sem sagði í þættinum:

„Ég náttúrulega skildi það aldrei alveg, það samhengi hlutanna að það væri einhvers konar landráð að fara í útflutning í gegnum streng. Við erum í dag með útflutning í gegnum ál. Fyrir mér er það bara hagsmunamat og ég geri enga athugasemd við að það sé kannað hvort að hugsanlega það geti verið góð hugmynd fyrir Íslendinga að selja raforku til útlanda.“

Gunnar Bragi deilir frétt Viljans og segir: „Var það ekki! Auðvitað stóð þetta alltaf til. Landsvirkjun hefur hækkað verð og miðað það við Evrópumarkað til að geta selt orkuna úr landi. Stórnotendur á Íslandi standast ekki samkeppnina við niðurgreidda orku í Evrópu en af því hefur þessi ráðherra ekki áhyggjur frekar en forstjóri Landsvirkjunar.“

Slíkt hið sama gerir Vilhjálmur Birgisson en hann segir:

„Sannleikurinn um þriðja orkupakkann að koma í ljós og ágætt fyrir fólk í hennar kjördæmi sem byggir lífsafkomu sína á orkusæknum iðnaði að vita þetta.“