Ráðgjöf verkalýðsrekenda reynist illa

Dagfari hefur nýlega gert að umtalsefni hvernig Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, virðist hafa valdið Lífeyrissjóði verslunarmanna jafnvel milljarðaskaða þegar hann skipaði fulltrúum VR í stjórn sjóðsins að koma í veg fyrir að sjóðurinn fjárfesti í hlutafjárútboði hjá Icelandair síðast liðið haust.

Ragnar hefur verið ásakaður um tilburði til skuggastjórnunar sem Fjármálaeftirlitið hlýtur að hafa til meðferðar og afgreiðslu.

Fulltrúar VR í stjórn sjóðsins komu í veg fyrir að sjóðurinn keypti í umræddu útboði fyrir þrjá milljarða króna á genginu einum. Gengi hlutabréfa í félaginu hefur nú hækkað um 80 prósent sem þýðir að sjóðsfélagar í Lífeyrissjóði verslunarmanna hafa orðið af ávinningi upp á meira en tvo milljarða króna vegna fyrirmæla Ragnars Þórs.

En Ragnar er ekki einn um að hafa reynt að skemma fyrir útboði Icelandair.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, var einnig með hrakspár í aðdraganda útboðsins. Þann 16. september sagði hann á Facebook:

„Botninn er augljóslega dottinn úr hlutafjárútboði Icelandair í eitt skipti fyrir öll. Bisnessmenn hafa engan áhuga - þetta er það vondur bisness. Enginn lífeyrissjóður með sjálfsvirðingu getur komið nálægt fjárfestingu eftir þetta.“

Ýmsir lífeyrissjóðir og aðrir höfðu ráðgjöf framkvæmdastjóra Eflingar að engu - og sjá ekki eftir því þegar hlutabréfin hafa hækkað um 80 prósent á tæpum þremur mánuðum. Níu þúsund aðilar völdu að fjárfesta í hlutabréfum Icelandair þrátt fyrir margháttaðar tilraunir verkalýðsrekenda til að skemma fyrir.

Fólk tók ekki mark á Viðari, Ragnari Þór, Sólveigu Önnu og öðrum sem urðu uppvís að niðurrifstali.

Líklega ættu verkalýðsrekendur að einbeita sér að öðru en fjárfestingarráðgjöf!