Rabbarbarabaka Þorvaldar vinsælasti eftirréttur fjölskyldunnar

Herdís Þorvaldsdóttir matgæðingur hefur gaman að því að skapa í eldhúsinu og nýtur þess að baka og elda ef það er ekki kvöð. Herdís hefur sérstaklega gaman að því að halda veislur og bjóða heim. Herdís er athafnakona í eigin rekstri auk þess sem hún er varaþingkona og formaður SJÓR og flugnefndar SAF og stundar sjósund af ástríðu í næstum öllum veðrum allan ársins hring.

M&H Matarást 2-Dísa-02.jpg

„Mér getur þótt gaman elda og baka en ekki ef það er kvöð. Ég hef gaman af því að skapa. Stundum fæ ég hugmynd og verð að prófa hana og þá er mögulega taílensk súpa í matinn þrjá daga í röð á meðan ég þróa þá hugmynd. Annars er mín matargerð frekar einföld. Ég er með ofnæmi fyrir hvítlauk sem veldur því að það er fábrotið úrval skyndibita sem ég get borðað og ég þarf að gera allar sósur frá grunni svo ég er orðin mjög sósufær. Ég er félagsvera í eldhúsinu og finn litla þörf til matargerðar ef ég er ein að borða. Þá verður oft bara ristað brauð og mjólkurglas fyrir valinu.“ Þegar kemur að því að taka á móti gestum og bjóða uppá veitingar þá er það eitt af því sem Herdís hefur unun af. „Ég er einstaklega veisluglöð. Þeim mun fleiri gestir þeim mun meira gaman. Ég vil veita vel og tekst gjarnan að galdra eitthvað fram ef bankað er upp á.“

Danskur ljúfmetis fróðleikur og framsýni að nýta landsins gæði

Matargerð Herdísar stjórnast töluvert af árstíð og veðri að hverju sinni og skapinu.

„Mín matargerð stjórnast töluvert af árstíð og veðri en ekki síður lundinni sjálfri. Ég er alin upp við að tína fjallagrös og sveppi, bláber og krækiber, rifsber og sólber, sulta og safta, rækta grænmeti og að matreiða baunir, fræ og grjón jafnt á við afurðir af hreistruðum dýrum, fiðruðum eða hærðum. “ Móðuramma hennar og pabbi voru Herdísi góðar fyrirmyndir í bernsku og lærði Herdís mikið af þeim um matargerð.

„Móðuramma mín og pabbi sáu um matargerðina á æskuheimilinu. Hún amma mín var klassísk eðalhúsmóðir sem varð svo mikill frumkvöðull í macrobiotiskri matargerð. Pabbi átti danska ömmu og bjó að hennar danska ljúfmetis fróðleik og framsýni við að nýta landsins gæði. Það sem ég kann í meðferð hráefna og matargerð lærði ég af þeim.“

Sunnudagsmatseðillinn ræðst af kenjum kokksins

Herdís segir að sú matarhefð sem helst einkennir hennar fjölskyldu sé matarboðið sem pabbi hennar stendur fyrir. „Sú hefð sem einkennir okkar fjölskyldu helst er að á sunnudögum býður pabbi okkur systkininunum og fylgifiskum í mat. Það sem er á borðum ræðst af kenjum kokksins, sem er alltaf pabbi sjálfur. Hann er listakokkur og tjáir ást sína með mat og mikið hlýtur hann að elska okkur mikið. Maturinn er alltaf framúrskarandi hvort sem í boði er lambalæri eða lúða, kryddlegin hjörtu, hrognkelsi eða hvalur. Annars er lítið um hefðir hjá mér. Ég er frekar tilviljanakenndur kokkur, oft óráðið hvað verður í matinn og hvenær, fyrir utan að ég elda ávallt rjúpur á jólunum og við borðum þær ekki klukkan sex.“

M&H Matarást 3 Dísa-07.jpg

Hnausþykkt heitt súkkulaði á tyllidögum

„Á tyllidögum eins og jóladag helli ég upp á heitt súkkulaði með þeyttum rjóma. Móðurafi minn átti súkkulaðigerð sem hét Amor. Þar var framleitt handgert eðalsúkkulaði og amma átti risa súkkulaðistykki frá Amor, í stóra frystinum út í bílskúr, löngu efir að starfsemi Amor lauk. Þegar við átti braut hún úr því drjúgan mola og lagaði hnausþykkt heitt súkkulaði sem hún bar fram í sérstakri súkkulaðikönnu.“ Að sögn Herdísar finnst henni nýsköpun og hefðir þurfi að haldast í hendur. „Mér finnast hefðir stundum verða íþyngjandi svo ég er ekkert að festa mig í að þurfa að matreiða ákveðna rétti á fyrirfram gefnum dögum. Mér finnst samt gaman að rifja upp gamlar uppskriftir, ef tími er til og frúin í stuði en vara við að þær gætu hafa þróast aðeins, það má ekki halda aftur af sköpunargleðinni.“

Íslenskt hráefni í uppáhaldi og hreint kókosvatn

Herdís er með á hreinu hvað er hennar uppáhalds matur. „Íslenskt gott hráefni, nýsprottið heimaræktað grænmeti, smjör, lax úr ánni eða lamb af fjalli, og bláber með rjóma í eftirrétt er ávísun á vellíðan og hamingju.“ En uppáhaldsdrykkurinn þinn? „Hreint kókosvatn, ég drekk svo mikið af því að það vellur út um eyrun á mér, ekki af því mér finnist það svo geggjað gott, heldur af því mér líður svo vel af því. Svo drekk ég mjólk með klökum, fullorðin konan. Annars eru spari drykkirnir þurrt kampavín og Coke light.“

Gefandi að deila gleðinni úr eldhúsinu

Ertu til í að koma á trúnó og ljóstra upp leyndarmáli úr eldhúsinu? „Ég held engu leyndu varðandi góðan mat, það er svo gefandi að deila gleði. Ég vil samt árétta eitt lykilatriði ef það hefur farið fram hjá einhverjum að það allt er betra með sykri og rjóma.“ Þegar kemur að eftirréttum á er Herdís í essinu sínu. „Ég elska eftirrétti, þeir innihalda líka aldrei hvítlauk og það verða allir glaðari eftir að hafa gætt sér á einhverju gómsætu. Nú er vorið komið og rabarbarinn er byrjaður að spretta í garðinum hjá pabba en hann er alveg einstaklega ljúffengur þegar hann er nýr og mjúkur. Þetta er einn af þessum réttum sem hefur verið að þróast í meðförum pabba og er orðinn svo vinsæll hjá fjölskyldunni að það er skafin hver ögn innan úr fatinu þegar hann er á boðstólum.“ Herdís sviptir hér hulunni af sínum uppáhalds eftirrétti sem er í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni.

M&H Matarást 6 Dísa .jpg

Rabbarbarabaka Þorvaldar

150 g sykur

3 msk. maísmjöl

2 msk. vanillusykur

½ tsk. kanill

½ tsk. nutmeg (múskat)

1 líter rabbabari í bitum (+ ber frosin)

Setjið allt hráefnið saman í skál og hrærið saman, setjið síðan í breitt fat.

Deigið:

100 g haframjöl

100 g púðursykur

½ tsk. kanill

55 g smjör í bitum

Hnoðið vel saman og stráið yfir rabbabarann.

Toppurinn:

150 g muldar heslihnetur eða möndlur

2 msk. flórsykur

Blandið saman og stráið yfir blönduna í fatinu. Bakið við 190°C í 35 mínútur. Þegar bakan er tilbúin takið út úr ofninum og látið hana kólna. Gaman er að skreyta bökuna með ferskum jarðaberjum og smá rabbara eftir smekk.

M&H Matarást 4-Dísa-03.jpg

Til hliðar til að setja með bökunni er upplagt að hafa þeyttan rjóma. Gott er að þeytta ½ l rjómi og bæta í hann 1-2 matskeiðum af vanillusykri. Berið fram á fallegan hátt og njótið.