Prinsinn við konu í hjólastól: „Dettur fólk mikið um þig?“

Filippus prins, drottningar­maður til 73 ára, lést skömmu áður en hann hefði orðið 100 ára. Hann var ekki allra þótt háðs­glósur hans og móðganir í gegnum tíðina bendi ekki til þess að hann hafi bein­línis verið leiðin­legur.

Fréttablaðið tók saman hans helstu móðganir og háðsglósur og óhætt er að fullyrða að af nógu er að taka.

Filippus vildi enginn hornkarl vera í höllinni og lét oft öllum illum látum í orðum og æði, enda sterkur persónuleiki með afdráttarlausar og stundum sérkennilegar skoðanir, sem hann hikaði ekki við að láta í ljós.

Þegar hann var að verða níræður lýsti hann ástandi sínu þannig að „hlutar væri farnir að detta af honum.“

Hann kallaði fjölmðila „djöfulsins skriðdýr“ og árið 1966 sagði hann við forstöðukonu spitala við Karíbahaf: „Þið eruð með moskító-flugur. Ég er með fjölmiðla.“

Þegar Filippus var einhverju sinni spurður hvenær sonur hans, prinsinn af Wales, myndi taka við krúnunni spurði hann á móti: „Ertu að spyrja hvort drottningin muni deyja?“

Þegar hertoginn var spurður árið 1967 hvort hann langaði til Rússlands var svarið baneitrað: „Ég myndi gjarnan vilja heimsækja Rússland, þrátt fyrir að bastarðarnir hafi myrt helming fjölskyldu minnar.“

Þegar Filippus hitti ritsjóra breska blaðsins Independent í móttöku í Windsor- kastala spurði hann ritsjórann hvað hann væri að gera í boðinu og ritsjórinn sagði að sér hefði verið boðið. Þá sagði hertoginn: „Já, en þú hefðir ekki þurft að mæta.“

Filippus var annálaður dýraverndunarsinni en það fór lítið fyrir dýraverndunarsinnanum þegar hann var í Ástralíu 1992 og afþakkaði boð um að fá að strjúka krúttlegum kóala-bangsa. „Ó, nei. Ég gæti fengið einhvern viðbjóðslegan sjúkdóm.“

Sígildar móðganir

„Þú hefur komist hjá því að verða étinn.“
Við breskan innflytjanda í Nýju-Gíneu.

„Ég sé aldrei heimilismat - það eina sem ég fæ er eitthvert fínerí.“

„Fyrir nokkrum árum voru allir að tala um það að þeir þyrftu meiri frítíma, allir væru að vinna of mikið. Nú þegar allir hafa meiri frítíma þá er kvartað undan atvinnuleysi. Fólk virðist ekki geta gert upp við sig hvað það vill.“
Um kreppustandið árið 1981.

„Ef það rekur ekki við eða étur ekki hey þá hefur hún ekki áhuga á því.“
Um Önnu dóttur sína sem er mikill hestaunnandi.

„Þurfum við eyrnatappa?“
Þegar honum var sagt að Madonna myndi syngja titillagið í Bond-myndinni Die Another Day.

„Þú virðist vera tilbúinn í háttinn.“
Við forseta Nígeríu sem var í þjóðbúningi.

„Þegar eiginmaður opnar bílhurð fyrir konu sína, þá er það annaðhvort nýr bíll eða ný kona.“

„Það er ánægjulegt að vera í landi þar sem þjóðin stjórnar ekki.“
Við einræðisherra Paragvæ.

„Hvað með Tom Jones? Hann hefur sankað að sér milljónum og er skelfilegur söngvari.“
Í umræðum um hversu erfitt er að verða ríkur í Bretlandi.

„Ó, ert það þú sem átt þennan skelfilega bíl.“
Við Elton John þegar söngvarinn sýndi honum glæsikerru sína.

„Æ, ég vildi hann slökkti á þessum hljóðnema.“
Á tónleikum Eltons John.

Flugvallarstarfsmaður: „Hvernig var flugferðin, yðar tign?“
Filipppus: „Hefur þú ferðast með flugvél?“
Flugvallarstarfsmaður: „Já.“
Filippus: „Þetta var alveg eins.“

„Ef þú verður hér mikið lengur kemurðu heim með skásett augu.“
Við breskan námsmann í Kína.

„Ungt fólk er eins og það hefur alltaf verið. Alveg jafn heimskt.
Við undirbúning Duke of Edinburgh Awards 2006.

„Nú jæja, þú hannaðir skeggið þitt nú ekkert of vel, er það?“
Í samræðum við hönnuðinn Stephen Judge um hökutoppa 2009.

„Eruð þið enn í því að kasta spjótum hver í annan?“
Við höfðingja frumbyggja í Ástralíu.

„Helvítis heimska fífl!“
Um nemanda við Cambridge sem þekkti hann ekki.

„Þið eruð flest afkomendur sjóræningja, er það ekki?“
Við íbúa Cayman-eyja 1994.

„Ég tel nú ekki að vændiskona sé neitt siðlegri en eiginkona, en þær gera sama gagnið.“

„Það hefur farið mikill tími og orka í að koma því svo fyrir að þið getið hlustað á mig tilkynna að nú sé búið að opna byggingu sem allir vita að er búið að opna fyrir löngu.“

„Hvernig heldurðu eiginlega þeim innfæddu edrú nógu lengi til að þeir nái prófinu?“
Við ökukennara í Skotlandi.

„Ég lýsi því hér með yfir að þetta sé opið, hvað sem þetta er nú aftur.“
Í heimsókn í Kanada.

„Dettur fólk mikið um þig?“
Við konu í hjólastól.