Pósturinn vildi þre­falt verð­mæti bókarinnar: „Ekki til­búinn að þiggja þessa sví­virði­legu afar­kosti“

Pétur Óskarsson rak í rogastans á dögunum þegar hann fékk reikning frá Póstinum upp á 9.365 krónur.

Rukkunin var fyrir innflutning á stakri bók frá Þýskalandi sem Pósturinn hafði nú í vörslum sínum.

Að sögn Péturs borgaði hann 18 evrur fyrir gripinn eða um jafnvirði 2.700 króna og taldi því álagningu Póstsins vera í litlu samræmi við andvirði fábrotnu skruddunnar.

„Pósturinn vildi fá 9.365 ISK fyrir það eitt að rukka mig um 11% VSK og rétta mér bókina yfir borðið. Eftir talsvert japl jaml og fuður neyddist ég til að skilja bókina eftir og líklega verður hún endursend af því að ég er ekki tilbúinn að þiggja þessa svívirðulegu afarkosti sem Pósturinn býður mér,“ skrifaði Pétur í færslu á Facebook-síðu sinni.

Fljótlega eftir að hann viðraði óánægju sína á samfélagsmiðlinum barst hins vegar símtal frá Póstinum þar sem honum var tilkynnt að gjöldin hafi skyndilega verið lækkuð niður í 1.650 krónur.

Eðlileg rukkun í upphafi

Birgir Jónsson, forstjóri Póstsins, segir í samtali við Hringbraut að málið byggi á því að bókin hafi verið stíluð á fyrirtæki í eigu Péturs.

„Ef það er gerð tollskýrsla á fyrirtæki þá er það svokölluð flókin tollskýrsla og hún er dýrari. Í þessu tilfelli kom í ljós að hann greiddi þetta persónulega og þetta var ekki greitt af fyrirtækinu. Þá er hægt að gefa út nýja tollskýrslu á hann sem einstakling og þá lækkar þetta.“

Einnig hafi Pósturinn fellt niður 2.359 króna geymslugjald líkt og fyrirtækið hafi gert hjá fleirum vegna kórónaveirufaraldursins. Markmiðið með því sé að letja fólk frá því að mæta á pósthúsin að óþörfu.

„Í raun og veru er þetta rétt rukkun. Fyrirtæki borga hærra gjald fyrir tollskýrslu vegna þess að það er oftast flóknari innflutningur og ekki gert ráð fyrir því að þetta sé ein bók.“