Pólitískir tvífarar á hægri jaðrinum

Lengst til hægri í íslenskum stjórnmálum eru Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn. Báðir eru flokkarnir miklir íhaldsflokkar og lítið örlar á því frjálslyndi og víðsýni sem í áratugi gerði Sjálfstæðisflokkinn að einni stærstu fjöldahreyfingu landsins.

Miðflokkurinn varð til sem klofningur út úr Framsóknarflokknum en stefnulega á flokkurinn mun meira skylt við Sjálfstæðisflokkinn en Framsóknarflokkinn. Hefur enda komið á daginn að Miðflokkurinn virðist fremur sækja fylgi sitt til fyrrum kjósenda Sjálfstæðisflokksins en til óánægðra framsóknarmanna.

Forysta Sjálfstæðisflokksins virðist skynja þetta og hefur bersýnilega tekið ákvörðun um að heyja harða baráttu við Miðflokkinn um atkvæðin lengst úti á hægri jaðrinum fremur en að reyna á ný að höfða til frjálslyndari kjósenda.

Ekki verður annað lesið úr áherslum flokkanna en að þeir séu samstiga um að verja sérhagsmuni stórútgerðarinnar með því að standa vörð um gjafakvótann. Ekki fer hnífurinn á milli þeirra þegar kemur að því að andstöðu við fulla þátttöku Íslands í samstarfi lýðræðisþjóða í Evrópu. Báðir flokkar hafa tröllatrú á íslensku krónunni og virðast standa í þeirri trú að með krónuna sem gjaldmiðil sé hægt að skapa langvarandi stöðugleika hér á landi með sambærilegu vaxtastigi og þekkist í helstu viðskiptalöndum okkar.

Þá eru báðir flokkarnir fullir efasemda um nauðsynlegar aðgerðir til að bregðast við loftslagsvá og umhverfisógn. Þeir eru andsnúnir bættum almenningssamgöngum, eins og best sést á samstarfi þeirra í minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem þeir hafa barist með kjafti og klóm gegn borgarlínu og raunar flestu sem snýr að nútímavæðingu samgangna.

Helsti munurinn á flokkunum er að Miðflokkurinn gengur lengra en Sjálfstæðisflokkurinn í að lofa kjósendum gulli og grænum skógum. Miðflokkurinn lofar að senda hverjum einasta Íslendingi hlutabréf í Íslandsbanka í pósti, sem þýði milljón til hverrar fjögurra manna fjölskyldu. Þá vill hann greiða auðlindagjald beint til kjósenda með því að senda hverjum og einum 100 þúsund krónur á fullveldisdaginn ár hvert. Ekki kemur skýrt fram hvaðan það auðlindagjald á að koma, nema varla verður það úr sjávarútvegi þar sem flokkurinn vill tryggja að „Lýðskrumarar [muni] ekki geta lagt á óhófleg gjöld ...“.

Eitt helsta slagorð Sjálfstæðisflokksins er að Ísland sé „land tækifæranna“. Ekki er þess sérstaklega getið í hverju þessi tækifæri felast, eða fyrir hverja þau eru, í heimi Sjálfstæðis- og Miðflokks sem standa vörð um gjafakvóta og sérhagsmuni stórútgerðarinnar, halda Íslandi frá fullri þátttöku í stærsta lýðræðissambandi í heimi og draga lappirnar í loftslagsmálum.

Flokkarnir eru svo keimlíkir að furðu sætir að þeir skuli ekki stíga skrefið til fulls og bjóða sameiginlega fram. Ýmsir flokkar hafa lýst því yfir að ekki komi til greina að mynda ríkisstjórn með þeim. Helstu möguleikar Sjálfstæðisflokksins á þátttöku í ríkisstjórn felast því í að núverandi stjórn haldi velli og helstu möguleikar Miðflokksins á stjórnarþátttöku felast í að stjórnin missi meirihluta sinn og þurfi liðsstyrk – það er að segja nái hann á annað borð inn á þing.

- Ólafur Arnarson