Play nýtir sér frumhlaup forseta ASÍ

Drífa Snædal forseti ASÍ hljóp heldur betur á sig í gær þegar hún réðist á nýja flugfélagið Play og vændi forsvarsmenn þess um að ætla að greiða flugfólki lægri laun en tíðkast á íslenskum markaði. Hún leyfði sér að hvetja almenning til að sniðganga félagið. Flumbrugangur forsetans var slíkur að hún virðist ekki hafa vitað mikið um hvað hún var að tala. Play er nýtt félag, viðbót við það sem þegar er í rekstri hér á landi. Ætla má að þessi viðbót geti flýtt því að ná niður atvinnuleysistölum og gert sitt til að ná Íslandi upp úr þeirri efnahagskrísu sem veiran hefur valdið hér á landi.

Atvinnuleysi mælist nú um ellefu prósent og 27 þúsund manns ganga um atvinnulausir og þurfa að þiggja bætur frá ríkissjóði. Ætli fólkinu á skrifstofu ASÍ sé alveg sama um það? Er óvild forseta ASÍ í garð atvinnulífsins í landinu svo hrein og tær að hún ráði ekki við sig og leyfi sér að stökkva fram og hvetja almenning til að sniðganga nýtt fyrirtæki sem ætlar að leggja sitt af mörkum til að minnka atvinnuleysi og flýta endurreisn þjóðfélagsins? Víst hefur atvinnuleysið ekki komið niður á fjölmörgum kontórum verkalýðsfélaga og heildarsamtaka þeirra. Á þeim vettvangi halda allir vinnunni og hækka reglubundið í launum samkvæmt gerðum kjarasamningum óháð hrikalegum atvinnuleysistölum, reyndar þeim hæstu sem um getur á Íslandi.

Play hefur upplýst að starfskjör hjá félaginu séu ekki síðri en fyrir sambærileg störf hjá öðrum. Deiluefnið virðist vera ágreiningur milli launþegafélags flugfólks sem Play hefur samið við og gamla flugfreyjufélagsins sem er hluti af ASÍ og hefur komið fram með svo óbilgjörnum hætti á vinnumarkaði að ekki þarf að koma á óvart þó fólk velji sér annað og ábyrgara launþegafélag en gamla flugfreyjufélagið. Drífa virðist hafa stokkið á vagn þessa gamla félags og ekki kynnt sér málavöxtu.

Það er reyndar kaldhæðnislegt að forseti ASÍ leggi svo mikið undir til að verja hóp flugfreyja í Flugfreyjufélaginu sem nýtur kjara sem eru sennilega síst lakari en forseti ASÍ hefur fyrir störf sín. Þá er miðað við að allt sé reiknað með, svo sem eins og ríkuleg skattfrjáls frímiðahlunnindi flugfreyja, skattfrjálsir dagpeningar, skattfrjáls símakostnaður, skattfrjáls tölvukostnaður og aðgengi að tollfrjálsum varningi sem fylgir störfum þeirra sem sinna millilandaflugi. Ætla verður að forseti ASÍ greiði fulla skatta af öllum starfskjörum sínum. Ekki er unnt að gera ráð fyrir öðru.

Forstjóri Play hefur krafið Drífu Snædal um afsökunarbeiðni vegna frumhlaupsins og hótað að draga hana fyrir dóm að öðrum kosti til greiðslu skaðabóta. Þeir hjá Play hafa svo í dag brugðið á leik með því að velta forseta ASÍ upp úr háði og auglýsa: DRÍFA SIG ÚT!

Forseta ASÍ er trúlega ekki skemmt.