Piparkökurnar í miklu uppáhaldi hjá berglindi hreiðars og ómissandi í aðventunni

Annar í aðventu er um helgina og þá er lag að huga að gæðastundum með sínum uppáhalds og jafnvel baka saman og skreyta piparkökur.   Aðventan er heillandi tími og margir eiga góðar minningar tengdar aðventunni sem hlýja og gefa. Aðventan er tími til að njóta, skapa og útbúa ljúffengar kræsingar, líka tími til að búa til minningar með komandi kynslóðum. 

Sjöfn Þórðar heimsótti Berglindi Hreiðarsdóttur köku- og sælkerabloggara, höfund Veislubókarinnar sem kom út á dögunum og bað hana um að svara nokkrum spurningum tengdum aðventunni og undirbúningi jólanna á hennar heimili.  Berglind er þekkt fyrir meistaratakta sína þegar kemur að bakstri og kökuskreytingum og hún gefur ekkert eftir þegar aðventan gengur í garð.  Hún er mikil jólamanneskja og veit fátt skemmtilegra að njóta aðventunnar með fjölskyldunni og dunda sér í eldhúsinu með dætrum sínum. Sjöfn fékk Berglindi til að baka eina af sínum uppáhalds smákökum sem hún bakar í aðventunni og svipta hulunni af uppskriftinni um leið.  Berglind og dætur hennar bökuðu og skreytu þessar listrænu og litríku piparkökur sem gleðja bæði bragðlauka og augu.

Bakar þú mikið?

„Ég hugsa ég baki alltaf mikið og fyrir jólin baka ég alltaf piparkökur með stelpunum mínum, sörur eru ofarlega á listanum ásamt laufabrauði og kannski eina sort til, jafnvel tvær, þrjár eða fleiri.“  Berglind segir að þetta fari allt eftir hversu mikinn hún hafi og nú til dags eru til alls konar tilbúin kökudeig til að létta undir og henni finnist ekkert að því að notast við slík til þess að fá ilminn og stemninguna í húsið.

Eiga smákökurnar sem þú bakaðir einhverja sögu?

„Piparkökur eru eitthvað sem voru alltaf bakaðar á mínu heimili á Seltjarnarnesinu í gamla daga. Pabbi skar líka ávallt út piparkökuhús með hundakofa því það hafa alltaf verið nokkrir hundar á heimilinu svo ætli það sé ekki ástæða þess að ég vill ávallt gera piparkökur og skreyta. Það er eitthvað svo jólalegt og stelpurnar elska það. Oftar en ekki kaupi ég samt tilbúið piparkökuhús sem ég set saman og skreyti, ekki enn lagt í að gera þetta svona fríhendis eins og pabbi í denn.“

Er mikið haft fyrir jólunum á þínu heimili?

„Það er bara misjafnt, mér finnast jólaljós, aðventukrans og jólatré mikilvægir þættir og svo fer það eftir tíma hversu mikið við skreytum fyrir utan það. Mér finnast jólin eiga að snúast um samveru með vinum og fjölskyldu og góðan mat.“

Hvað finnst þér skemmtilegast við jólin?

„Elda góðan mat og notalegar samverustundir með þeim sem manni þykir vænt um. Samverustundir skapast til dæmis í gegnum bakstur, hitting á tónleikum, matarboð og fleira skemmtilegt.“

Áttu þér uppáhalds jólaskraut?

„Nei, ekki þannig.  Ég hef í gegnum tíðina safnað fallegum jólakúlum á tréð úr ýmsum áttum og leyfi mér að kaupa örfáar nýjar á hverju ári í safnið.“

Áttu þér uppáhalds jólalag?

„Jólahjól með Sálinni kemur mér alltaf í jólaskap.“

Heldur þú í hefðir í jólaundirbúningnum og/eða um jólin?

„Matur klukkan sex á Aðfangadag er heilagt hjá mér, annað ekki,“ segir Berglind og hlær.  „Mér finnst mjög gaman að vera á Íslandi á aðventunni og njóta jólaljósanna og jólaundirbúnings. Það er samt líka alveg fínt að kúpla sig alveg burt þar sem jólaundirbúningur breytist stundum í jólastress og of mörg jólaboð.  Í fyrra fórum við í Asíureisu og þá gerðum við nákvæmlega ekkert fyrir jólin, pökkuðum okkur niður um miðjan des og komum aftur um miðjan janúar.  Við misstum þannig lagað af íslenskum jólum. Við vorum á götumarkaði á Aðfangadag að finna jólagjafir í pakkaleik með vinum okkar á meðan kokkur eldaði dýrindis asíska núðlurétti og pakkaflóðið var skilið eftir heima.  Það komu samt jól, bara á annan hátt en venjulega og þetta er klárlega eitthvað sem ég væri til í að gera aftur eftir nokkur ár og allir í fjölskyldunni eru því sammála.“

\"\"

Um Berglindi Hreiðarsdóttur – Uppáhalds listinn:

Maki: Hermann Hermannsson

Börn: Harpa Karin, Elín Heiða, Hulda Sif

Gæludýr: Brúnó (Hundur af tegundinni írskur setter)

Uppáhaldsjólamynd:  Christmas Vacation, ekki spurning, get horft á hana aftur og aftur og aftur og alltaf hlegið jafn mikið.

Ómissandi á aðventunni:  Piparkökubakstur, kertaljós, heitt súkkulaði með rjóma og kósý.

Jólamatur:  Oftast hamborgarhryggur með öllu tilheyrandi, er að fara að spreyta mig á rjúpum þetta árið fyrir veiðimanninn minn, það verður gaman að sjá hvernig það tekst til.

Jóladrykkur: Malt & appelsín.

Hvít eða rauð jól? Alltaf hvít.

Berglind ljóstraði upp uppskriftin af gómsætu piparkökunum sem enginn verður svikinn af og ljúffenga glassúrnum sem er ómissandi þegar skreyta skal piparkökurnar.

Piparkökur að hætti Berglindar

600 g hveiti

1 ½ dl sýróp

75 g smjörlíki

1 ½ dl sykur

1 ½ dl púðursykur

1 ½ dl mjólk

3 tsk. kanill

2 tsk. engiferduft

3 tsk. negulduft

½ tsk. pipar

4 tsk. matarsódi

Byrjið á því að hita smjörlíki og sýróp við vægan hita þar til bráðið.  Öll önnur hráefni sett í hrærivélarskálina  á meðan og blandað saman.  Því næst er bræddu smjör og sýrópi hellt varlega saman við blönduna í hrærivélarskálinni og hnoðað með króknum svolitla stund. Hveiti stráð á borðflöt og deigið hnoðað í kúlu með höndunum, plastað vel og sett í kæli í minnsta kosti 3 klukkustundir (yfir nótt í lagi).  Bakað við 200°C heitan ofn í 5-8 mínútur eða þar til kökurnar verða fallega gylltar.

Glassúr

Til skreytingar

½ bolli volgt vatn

2 tsk. ljóst kornsýróp

½ tsk. möndludropar

6 bollar flórsykur

Setjið allts saman í hrærivélarskálina og þeytið þar til hráefnði verður vel blandað og glansandi (getið sett meira vatn ef þið viljið þynnri eða meiri flórsykur ef þið viljið þykkari glassúr).  Skiptið niður í nokkrar skálar og litið að vild, munið þó að geyma smá hvítan líka þar sem það er svo jólalegt. Hver litur síðan færður yfir í sprautupoka og lítið gat klippt á endann. Svo er bara að fara að föndra og leika sér. Leyfið glassúrnum að þorna yfir nótt og þá er hægt að stafla kökunum svo lengi sem glassúrinn er ekki of þykkur (við höfðum þær kökur bara efst í staflanum).

Gleðilega aðventu.