Pétur vildi vita hver væri versti skyndibitinn: „Hræódýrt, skítugt og alveg ótrúlega vont.“

18. janúar 2021
12:45
Fréttir & pistlar

Einn af vinsælustu íslensku Twitter-notendunum, Pétur Jónsson, hóf vikuna á því að velta fyrir sér hver væri versti skyndbitinn á höfuðborgarsvæðinu. Að sjálfsögðu ákvað hann að fá álit fylgjenda sinna á samfélagsmiðlinum vinsæla. Íslendingar eru annálaðir unnendur skyndbitamats og því sköpuðust fljótt fjörugar umræður á síðu Péturs.

Margir veitingastaðir í fullum rekstri fengu það óþvegið í athugasemdum við færslu Péturs en aðrir eru greinilega enn að jafna sig á mat sem löngu horfnir veitingastaðir buðu uppæa. „Þegar ég fæ svona spurningu hugsa ég alltaf um Stélið við Tryggvagötu forðum daga. Hræódýrt, skítugt og alveg ótrúlega vont,“ sagði Þorgils Jónsson.

Þá vildu margir netverjar meina að Metró bæri ábyrgð á versta skyndbitanum en aðrir vildu meina að innkoma Costco á veitingamarkaðinn væri mikið feilspor.

Aðrir staðir sem fengu það óþvegið voru Serrano, Subway, Dominos, Taco Bell, Nings, Aktu Taktu, KFC og einnig Hlölli, en þá aðeins ef viðskiptavinurinn væri edrú.