„Hann er skarpleitur og fríður þar sem hann situr til hliðar við aðra gesti safnaðarheimilisins í Breiðholtskirkju og spilar á píanóið. Tónarnir mynda notalega stemmingu á meðan fólkið malar.“
Svona hefst pistill eftir Pétur Georg Markan biskupsritari í bakþönkum Fréttablaðsins í dag. Þar skrifar hann um málefni sem hefur verið áberandi í íslenskri umræðu undanfarin misseri; málefni þeirra fjölmörgu útlendinga sem koma til Íslands í leit að betra lífi en þurfa frá að hverfa.
„Það fer ekki mikið fyrir honum en umhverfið er einhvern veginn allt miklu betra á meðan hann spilar – á meðan hann er. Partur af samfélagi, hluti af veröld, eitt mikilvægt púsl í undramynd mannsins. Gefur af sér.“
Pétur segist hafa spjallað við hann þegar þeir eru báðir að sækja sér kaffi.
„Ég ávarpa hann á ensku og spyr hvort hann spili mikið tónlist – hann svarar mér á íslensku og við ræðum um þetta sameiginlega áhugamál okkar. Hann kom fyrir rúmum tveimur árum, fékk tungumálið á heilann og las íslensku upp á hvern dag, talaði og hlustaði. Fékk vinnu við umönnun á hjúkrunarheimili og leið vel í samfélagi við gamla fólkið – spjallaði, þjónustaði og studdi, og treysti þannig íslenskuna og upplifði í leiðinni öryggi og frið. Tilgang. Gaf af sér í starf sem annars erfiðlega gengur að manna. Lítils metið láglaunastarf í veröld sumra en lífsgjöf og erindi dagsins í hans hjarta. Vinnur, borgar til samneyslunnar og rækir þannig samábyrgðina – mannar mikilvægan póst, annars ómannaðan póst.“
Pétur segir að nú sé maðurinn aftur á móti kvíðinn.
„Nú hefur umsókn hans verið hafnað og hann bíður kvíðinn eftir nokkrum þungum höggum á dyrnar. Liðsafnaður fyrir utan og háu ljósin blinda. Vísað úr landi til Grikklands. Forsætisráðherra talar um í helgarumræðunni að það þurfi að auðvelda fólki utan EES að koma inn á vinnumarkaðinn. Það er rétt hjá henni og þess eru fordæmi hjá öðrum EES-þjóðum.“