Pétur: Skólabörnum verður meinaður aðgangur að Vatnajökli

„Íslenskum skólakrökkum verður eins og staðan er í dag meinaður aðgangur vegna átroðnings erlendra ferðamanna, en ég hef verið að leiðsegja erlenda skólahópa í jöklagöngu og fengið fyrirspurn frá íslenskum skólahópum, en eins og staðan er í dag þá get ég ekki svarað þeim með vissu hvort að ég geti farið með þau í jöklagöngu á sína eigin jökla vegna þess að það er búið að ráðstafa þessu svæði fyrir erlenda gesti,“ segir Pétur Gunnarsson, leiðsögumaður, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Þar gagnrýnir hann harðlega Vatnajökulsþjóðgarð að úthluta kvóta á skriðjökla á suðursvæði þjóðgarðsins.

„Allir vita hvernig kvótakerfi í sjávarútveginum hefur farið með aðganginn að fiskimiðunum, íslenskir jöklaleiðsögumenn eru komnir í eða eru á leiðinni í sömu stöðu og fólkið í þorpunum í kringum landið, þ.e.a.s. hafa ekki aðgang að sínum eigin auðæfum. Nú hafa forráðamenn Vatnajökulsþjóðgarðs ákveðið að hefta aðgang Íslendinga í eigin þjóðgarð,“ segir hann. Ætlar hann ekki að fara eftir reglunum. „Ég sem leiðsögumaður (jökla- og fjallaleiðsögn) í nær 20 ár má ekki fara um jökla í eigin landi segi nei og hef ákveðið að beita borgaralegri óhlýðni og neita alfarið að láta bjóða mér þetta og hef ákveðið að láta á það reyna hvað verður gert þegar ég mæti með mína viðskiptavini í minn eigin þjóðgarð.“