Páll ver skrif sín um Helga Seljan: „Opinber geðveiki veitir ekki afslátt frá gagnrýni“

Ofurbloggarinn Páll Vilhjálmsson segir ekkert athugavert við skrif sín um stjörnublaðamanninn Helga Seljan, en Páll sagði lítið að marka fréttaflutning hans þar sem Helgi hafi opinberað að hann hafi þurft að leita sér aðstoðar vegna geðrænna vandamála. Margir hafa hraunað yfir Pál og skrif hans allt frá Jakobi Bjarnar til Bubba Morthens, Helgu Völu Helgadóttur, Eiríks Rögnvaldssonar og Egils Helgasonar.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélagsins, segir Pál vera lítilmenni í samtali við Fréttablaðið. Helgi hafi mátt sæta ofsóknum af hálfu Samherja. „Það er nauð­syn­legt að minna á að á öllum þessum tíma síðan málið hófst hefur ekki verið gerð ein einasta efnis­leg at­huga­semd við fréttir Helga og Kveiks um Sam­herja,“ sagði Sig­ríður Dögg.

Grímur Atlason, formaður Geðhjálpar, segir skrif Páls lýsa mjög tak­mörkuðum skilningi á mann­legu eðli. „Við viljum ekki gefa svona orð­ræðu of mikið vægi en hér er vegið harka­lega að frið­helgi Helga. Ef utan­að­komandi að­stæður hafa verið eins og Helgi lýsir þeim þá er ekki bara skiljan­legt að hann þurfi að­stoð heldur sýnir það eftir­sóknar­vert hug­rekki sem er okkur öllum fyrir­mynd. Ef ein­hver reynir að sverta hans per­sónu vegna þessa hug­rekkis þá er það mjög al­var­legt.“

Páll sjálfur skilur ekkert í gagnrýninni en hann segir í nýjustu bloggfærslu sinni að Helgi hafi sjálfur kallað þetta yfir sig.

„Ef stjórnmálamaður kæmi fram opinberlega og segðist veikur á geði og bæðist af þeim ástæðum undan gagnrýni á störf sín og framgöngu er líklegt að honum yrði að ósk sinni? Nei, hann yrði beðinn að stíga til hliðar og ná bata fjarri opinberu kastljósi. Þeir sem hefðu samúð með veikindunum myndu óska viðkomandi góðs bata. Aðrir myndu fordæma og kalla það ósvífni að láta eins og opinber játning á geðveiki sé ígildi vottorðs frá gagnrýni,“ segir Páll.

„Opinberar persónur eiga rétt á sínu einkalífi. En þegar þær stíga fram með einkamál sín og bera þau á götur og torg - tja, þá eru einkamálin orðin opinbert mál. Opinber geðveiki veitir ekki afslátt frá gagnrýni. Ef svo væri yrði löng biðröð á geðdeild.“