Páll Óskar elskar að vera hommi og hvetur fólk til að hittast ekki bara í gegnum stefnumótaforrit

8. ágúst 2020
12:57
Fréttir & pistlar

Tónlistarmaðurinn Páll Óskar segist vera mjög sáttur í eigin skinni og elska hvern dag sem hann lifir.

„Ég elska að vera hommi.“

Í tilefni Hinsegin daga fagnar hann fjölbreytileikanum sem fyrirfinnst í samfélagi samkynhneigðra hér á landi og hvetur fólk til að draga lærdóm af erfiðri reynslu hinsegin einstaklings í Bandaríkjunum .

Til stóð að halda Gleðigönguna í tuttugasta sinn í dag en henni var aflýst af sóttvarnarástæðum.

Vorkenndi höfundinum

Í færslu á Facebook-síðu sinni gerir Páll Óskar bandaríska blaðagrein sem titluð er „Why I No Longer Want To Be Gay" að umtalsefni sínu. Er hún sögð skrifuð af samkynhneigðum karlmanni í Bandaríkjunum sem óskar þess að geta breytt kynhneigð sinni.

Páll Óskar segir lestur greinarinnar hafi vakið upp nokkra sorg en þar lýsir höfundur því þegar hann kom út úr skápnum seint á æviskeiðinu og sogaðist beint inn í „partísenu í homma-gettói í amerískri stórborg,“ eins og Páll Óskar orðar það.

Telur hann að þessi upplifun hafi haft töluverð áhrif á niðurlag greinarinnar.

„Lífið í homma-gettóum í stórborgum er vægast sagt mjög dópað, drukkið, alkahólískt, kynferðislegt, fíknað og haldið uppi af mjög brotnu fólki sem venjulega flýr ofbeldið úr smábænum sem það fæddist í.“

Þar megi finna fólk með brotna sjálfvirðingu og skakka sjálfsmynd sem sýni öðrum lélega framkomu til að hylma yfir sinn eigin andlega sársauka.

Þakkar fjölbreytnina

„Flestallt sem gaurinn segir í greininni hittir naglann á höfuðið um amerísku partísenuna (og gay partísenur stórborga um heim allan). En því miður kemur greinin út eins og þessi partí-dóp-sex-lífstíll eigi við um alla homma í heiminum. Þar hefur höfundurinn einfaldlega hræðilega rangt fyrir sér.“

Í því samhengi þakkar Páll fyrir fjölbreytnina í samfélagi samkynhneigðra á Íslandi og vísar þar til að mynda til Facebook-hópsins Hommaspjallsins þar sem samkynhneigðir karlmenn ræða ólík málefni.

„Mér finnst allir strákarnir á íslenska Hommaspjallinu á Facebook vera lifandi sönnun fyrir því hvað við erum gríðarlega fjölbreyttur hópur fólks, með mismunandi bakgrunn, skoðanir, drauma, menntun, áhugamál, þarfir og langanir. Einn besti þráðurinn sem hefur myndast þar var þegar spurt var hver væri atvinna okkar og menntun. Fjölbreytnin sem braust fram í svörunum drap niður þessa goðsögn um að allir hommar væru á einhvern undarlegan hátt steyptir í sama mótið. Það gerir höfundur greinarinnar, því miður.“

Hvetur homma til að hittast á fleiri stöðum

Þá segir hann að höfundurinn hefði raunar gott af því að leita út fyrir skemmtanalífið og stefnumótaforrit á borð við Grindr.

„Í amerískum stórborgum finnur þú alltaf eitthvað hinsegin sem tengist áhugamálunum þínum.“

Í ljósi þessa hvetur Páll Óskar íslenska homma, sem hafi ekki jafn ríkulegt aðgengi að hinsegin menningarflóru stórborganna, til að passa upp á að hittast á fleiri stöðum en á áðurnefndu stefnumótaforriti.

„Ekki gleyma svo öllu hinu frábæra stöffinu sem er að gerast á íslensku senunni: Hommaspjallið (sem ég elska), Drag-súgur, Pink Iceland böllin, Bears on Ice, Hinsegin Dagar, Reykjavík Pride. Ef við erum duglegir, tökum þátt í Hommaspjallinu og mætum á þessa viðburði, þá verða þeir sjálfsagt fleiri, meira gefandi, meira gaman, meira líf, meiri fjölbreytni, minni einangrun og enginn hérna inni mun nokkurn tíma segja svona bull eins og "Mig langar ekki lengur að vera gay".“