Páll: „Hann hefði gert það til að bjarga mann­kyn­inu ef hann hefði getað“

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, fer hlýjum orðum um vin sinn, John Snorra Sigurjónsson sem sneri ekki heim eftir för á næsthæsta fjall heims, K2, fyrr í þessum mánuði.

„John og Lína voru ein­stak­lega flott hjón. Lína stór­glæsi­leg, eld­klár, ein­beitt, harðdug­leg og skemmti­leg. John fjall­mynd­ar­leg­ur, með lokk­ana sína út um allt, brosið breitt og hlát­ur­inn smit­andi. Og líka eld­klár og dug­leg­ur, fjöl­hæf­ur og ein­hvern veg­inn gat allt sem hann tók sér fyr­ir hend­ur. Og sem hjón full­komnuðu þau hvort annað og voru sam­stiga og sam­hent í öll­um sín­um verk­efn­um,“ segir hann í grein sem birtist á vef mbl.is í dag.

Páll segir að John Snorri hafi verið magnaður fjallgöngumaður og náttúrubarn með mikla aðlögunarhæfni. Hann hafi vakið aðdáun og undrun í heimi háfjallafólks og áunnið sér virðingu á skömmum tíma.

„John Snorri hafði á skömm­um tíma klifið fjög­ur af 14 átta þúsund metra fjöll­un­um og stefndi á að klára þau öll. Auk þess hafði hann klifið fjöl­mörg önn­ur fræg fjöll, til að mynda Matter­horn þar sem hann skokkaði úr bæn­um Zermatt upp á hæsta tind á þessu fræga fjalli og til baka á rétt rúm­um fjór­um tím­um.“

Páll bætir við að fyrir marga geti verið illskiljanlegt að leggja í leiðangur þann sem John Snorri lagði í; að komast á tind K2 að vetri til í einhverjum erfiðustu aðstæðum sem hægt er að hugsa sér á jörðinni.

„Og það er kannski bara allt í lagi. Maður þarf ekki að skilja allt. Maður þarf ekki endi­lega að hafa skoðanir á öllu. John var eina mín­útu að út­skýra fyr­ir mér að hann yrði að tak­ast við á við þetta verk­efni. Þetta var allt í bein­un­um í hon­um og blóðinu. Þetta var svo miklu meira en fjalla­bakt­ería sem sum okk­ar fá. Þetta var ástríða, köll­un sem hann varð að svara,“ segir Páll og bætir við að John Snorri hefði vel getað orðið geimfari.

„Hann hefði ekki skor­ast und­an því að að vera send­ur í geimskutlu á móts við risa­stór­an loft­stein sem stefndi á jörðina. Hann hefði gert það til að bjarga mann­kyn­inu ef hann hefði getað. Þannig hafði hann aðra sýn en við flest hin. Við hefðum legið uppi í sófa með fjar­stýr­ing­una af sjón­varp­inu og fylgst með frétt­um af geimskutl­unni. En þótt John hafi kosið að tak­ast á við áskor­an­ir sem voru okk­ur hinum ómögu­leg þá var hann fyrst og síðast elsk­andi eig­inmaður, um­hyggju­sam­ur faðir og frá­bær vin­ur,“ segir Páll sem endar pistilinn á þessum orðum:

„Og nú er sag­an þeirra orðin sag­an henn­ar Línu. Ég er viss um að það verður góð og fal­leg saga. Og þó að John sé ekki leng­ur á meðal okk­ar í lif­andi lífi, bros­andi og geislandi glaður, þá varðveit­um við í hjarta okk­ar minn­ing­ar um sann­kallaðan af­reks­mann en ekki síður ein­stak­an mann­vin og góða mann­eskju.“

Pistilinn má lesa í heild hér.