Páll hjólar í Þóru eftir uppátæki hennar á Eddunni í gærkvöldi

Páll Steingrímsson, skipstjóri hjá Samherja, sendir RÚV og Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kveiks, tóninn eftir að þátturinn hlaut Edduverðlaunin í gærkvöldi sem Frétta- eða viðtalsþáttur ársins.

Þóra steig í pontu á afhendingunni og gagnrýndi meðal annars lögregluna fyrir að kalla blaðamenn til yfirheyrslu.

„Vegna þess að á þessum tímum er ótrúlega mikilvægt að fá að vita, finna og skynja að þið fagfólkið og áhorfendur kunnið að meta hvað við erum að gera,“ sagði Þóra og bætti við: „Því ekki kann lögreglan að meta það.“

Páll tjáir sig um málið í færslu á Facebook-síðu sinni en eins og kunnugt er var síma hans stolið þegar hann lá alvarlega veikur á sjúkrahúsi fyrir rúmu ári síðan. Komið hefur fram að spjótin beinast að einstaklingi sem er nákominn Páli og leikur grunur á að sá hafi komið innihaldi farsímans til fjölmiðla.

Páll segir að hann hafi ítrekað bitið í tunguna á sér og setið á sér vegna umfjöllunar í fjölmiðlum en nú geri hann undantekningu á.

„Í gærkvöldi flutti Þóra Arnórsdóttir, sakborningur í þessu lögreglumáli og yfirmaður þáttar á ríkisfjölmiðlinum þakkarræðu fyrir verðlaun sem þáttur hennar hlaut. Gerði hún að umtalsefni að lögreglan kynni ekki að meta verk hennar og að Samherji hefði stofnað skæruliðadeild sér til höfuðs. Kannski er hið fyrra rétt en hin staðhæfingin er hugarburður hennar til að gera sjálfa sig að fórnarlambi og afsaka það sem hún hefur gert. Á það hef ég margsinnis bent en reyndar er ég ekki í sömu aðstöðu og Þóra við að koma mínum sjónarmiðum á framfæri, þar sem hún hefur ríkisfjölmiðil landsins og nokkrar hjáleigur meðan ég hef bara Facebook vegg minn, það sjá allir sem vilja sjá að á þessu töluverður aðstöðumunur,“ segir Páll sem fer svo yfir nokkrar „staðreyndir“ eins og hann orðar það.

Hann segir að honum hafi verið byrlað til þess eins að komast í símann hans og samskipti. Sú vinna hafi hafist þegar hann var rétt kominn í sjúkrabíl og haldið áfram þegar hann fór í öndunarstopp og í öndunarvél.

„Afritaði síminn er enn notaður til að reyna að komast í gögn í mínum fórum. Sá angi málsins er líka i höndum lögreglu. Mánuðum saman þegar aðstandendur þessarar veiku manneskju sem fengin var til ódæðisins reyndu að fá hjálp fyrir viðkomandi, var Þóra Arnórsdóttir á hinum endanum að hvetja viðkomandi áfram og biðja þennan fárveika einstakling að senda sér sem mest. Sem mest! Það dugar að vera læs á íslensku til að sjá bágindi viðkomandi í samskiptum hennar og Þóru en það stoppaði ekki Þóru Arnórsdóttur i að kynda undir óra þessa veika einstakling og hvetja áfram. Ekki lét hún það duga heldur ræddi einnig við viðkomandi tveimur klukkutímum áður en þessi veiki einstaklingur for til skýrslutöku i fyrsta sinn hjá lögreglu.“

Páll vandar Þóru ekki kveðjurnar.

„Ætli þessi vinnubrögð séu það sem Þóra mun hugsa um þegar hún horfir á verðlaunagripinn og furðar sig á að ekki skuli allir kunna að meta það. Ég skil að lögreglan kunni ekki að meta það. Sjálfum verður mér óglatt og sérstaklega eftir lestur gagnanna þar sem einbeittur ásetningur Þóru kemur fram.“

Færslu Páls má lesa í heild sinni hér að neðan: