Páll hættir á Alþingi: Tekur hann við af einum umdeildasta manni landsins?

Það kom mörgum nokkuð á óvart þegar Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi útvarpsstjóri, tilkynnti að hann myndi ekki gefa kost á sér í prófkjöri flokksins fyrir komandi Alþingiskosningar.

Páll tilkynnti þetta á Facebook-síðu sinni í dag en hann skipaði efsta sætið á lista Sjálfstæðismanna í kjördæminu í síðustu kosningum. Páll sagði að ákvörðunin væri tekin persónulega en ekki vegna aðstæðna í pólitíkinni.

Ýmsir hafa velt fyrir sér hvað Páll ætlar að taka sér fyrir hendur þegar hann hættir á þingi. Hann er fæddur á þjóðhátíðardaginn árið 1954 og verður því 67 ára í sumar.

Gunnar Smári Egilsson, fjölmiðlamaður og stofnandi Sósíalistaflokksins, er nokkuð sannfærður um hvert næsta verkefni Páls verður – hann spáir því að hann taki við sem ritstjóri Morgunblaðsins af Davíð Oddssyni í haust.

„Þetta er páskasaga, saga dauða og endurfæðingar. Páll hættir á þingi en rís upp á þriðja degi sem ritstjóri Morgunblaðs útgerðaraðalsins. Davíð hefur valið Pál, alveg eins og hann valdi hann við að gæta sauða sinna á göngum útvarpshússins,“ segir Gunnar Smári á Facebook-síðu sinni.

Davíð hefur verið ritstjóri Morgunblaðsins frá árinu 2009, en skömmu áður hafði hann verið hrakinn úr Seðlabankanum. Davíð var svo forsætisráðherra, borgarstjóri og formaður Sjálfstæðisflokksins til margra ára og nýtur enn vissrar hylli hjá ákveðnum hópum fólks.

Hvort af þessu verði skal ósagt látið en það eru í það minnsta fróðlegir tímar framundan í íslenskum stjórnmálum. Svo er landslagið í fjölmiðlum síbreytilegt.