Páll birtir sláandi mynd og spyr: „Er kórónuveiran bara flensa?“

„Er kórónuveiran "bara flensa"? Ja, ef það er tilfellið þá er hefur hún hlutfallslega aukið meðaldánartíðni meir en Spænska veikin (flensan) 1918 gerði í Bandaríkjunum.“

Þetta segir Páll Þórðarson, efnafræðingur og prófessor í lífefnafræði við Háskólann í Sydney í Ástralíu, á Facebook-síðu sinni. Þar endurbirtir hann sláandi mynd sem birtist fyrst í New York Times og sýnir meðaldánartíðni í Bandaríkjunum eftir árum.

Eins og sést á meðfylgjandi mynd eru tvö ár sem skera sig sérstaklega úr hvað þetta varðar; 1918 þegar spænska veikin geisaði og svo árið 2020 þegar kórónuveirufaraldurinn byrjaði að láta að sér kveða.

„Ef litið er til "meðaldánartíðni" þá er 2020 í Bandaríkjunum hærra yfir meðaldánartíðni en meir að segja 1918 þegar Spænska veikin geisaði,“ segir Páll sem tekur skýrt fram að Bandaríkin séu alls ekki það land sem hefur farið verst út úr COVID-19-faraldrinum. Þannig hafi þó nokkur Evrópulönd farið verr út úr faraldrinum.

Páll segir að lönd þar sem faraldurinn var tekinn fastari tökum, til dæmis Ísland, mörg Austur-Asíulöndin og Eyjaálfulöndin, hafi að því er virðist bjargað óteljandi mannslífum með því að láta þetta „rugl“ um að kórónuveiran sé „bara flensa“ sem vind um eyru þjóta.

„T.d. ef Íslendingar hefðu fylgt Svíum væru nærri 450 Íslendingar látnir. Eða 600 ef Bandaríkjunum hefði verið fylgt. Eða 12 í stað 29 ef Ástralíu hefði verið fylgt.“

Páll vakti heims­at­hygli á síðasta ári fyrir færslu sína um hand­þvott og hvernig hann getur gert út af við COVID-veiruna. Páll er vel að sér í þessum fræðum enda efna­fræðingur að mennt sem fyrr segir og með mikla og langa reynslu. „Ég hef alltaf verið hug­fanginn af veirum,“ sagði hann til dæmis í við­tali við RÚV í mars í fyrra, um það leyti sem COVID-19 fór að dreifa sér um heims­byggðina.

Hér má sjá umfjöllun New York Times sem færsla Páls er byggð á.