Óveðrið: 200-400 milljóna tjón eystra

Sveitarstjórnarmenn í Fjarðabyggð áætla að tjón af völdum fárviðrisins sem gekk yfir landið á milli jóla og nýárs kosti byggðina á milli 200 og 400 milljóna króna.

Hafnarmannvirki eystra urðu illa fyrir barðinu af leifum Franks, en svo nefndist fellibylurinn sem fór á þessum tíma norður um höf og gerði usla hér á landi þótt heldur hafi verið dregið af honum.

Gömul sjóshús og áfastar bryggjur splundruðust eða skekktust illa í þessu óveðri sem var sveitarstjórnarmönnum eystra alvarleg áminning um að gera betur í hleðslu sjóvarnargarða á svæðinu.

Þá varð töluverð eyðilegging á vegum, en bundið slitlag flettist af nokkrum þeirra í óveðrinu.