Óttar geðlæknir styður Vilhjálm: „Alltaf þorað meðan aðrir þögðu“

Óttar Guðmundsson, geðlæknir og pistlahöfundur, lýsir yfir stuðningi við Vilhjálm Bjarnason, fyrrverandi þingmann, vegna prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi sem hefst á morgun og lýkur á laugardag.

Vilhjálmur gefur kost á sér í 1. til 3. sætið á lista flokksins en Óttar telur að Vilhjálmur verði mikilvægur í kjarabaráttu aldraðra.

Í grein í Morgunblaðinu í dag bendir Óttar á að aldursdreifing þjóðarinnar hafi breyst mikið á síðustu áratugum. Fæðingum hafi fækkað og meðalaldurinn hækkað og um 30% kjósenda séu komin yfir sextugt, eða 75.000 manns.

„Margir telja að þessi hópur sé bæði orðinn of stór og þurftarfrekur. Krafa samtímans er að aldraðir séu lítt sýnilegir. Fólk á að hætta sem fyrst að vinna, flytja í elliblokk og skipta veraldlegum eigum sínum milli erfingjanna. Rosknir borgarar þekkja vel spurningar eins og: „Ertu enn að vinna?“ „Ertu enn að ferðast?“ „Ertu ennþá lifandi?“ Áhrif þessa stóra hóps eru fremur lítil,“ segir Óttar.

Hann segir að sárafáir ellilífeyrisþegar séu í framboði í komandi kosningum og enginn í öruggu sæti.

„Flokkarnir vilja að gamla fólkið kjósi en láti að öðru leyti sem minnst fyrir sér fara. Enginn skyldi þó efast um andlegt og líkamlegt atgervi gamals fólks,“ segir Óttar sem rifjar upp Íslendingasögurnar í því samhengi, persónur eins og Sighvat Sturluson, Egil Skallagrímsson, Jón Arason og Bergþóru Skarphéðinsdóttur sem létu til sín taka í ellinni.

„Ekkert þessara höfðingja hefði náð inn á framboðslista stjórnmálaflokkanna þar sem eitt helsta kosningaslagorðið er „kjósum framtíðina“ þótt hún sé jafn ófyrirsjáanleg og gosvirknin á Reykjanesi,“ segir Óttar sem telur að Vilhjálmur sé það sem til þarf.

„Vilhjálmur þekkir vel kjör aldraðra og er djarfur og óhræddur baráttumaður. Hann hefur alltaf þorað meðan aðrir þögðum“ segir hann og bætir við að enginn frambjóðenda í Suðvesturkjördæminu komist nær þessari mannlýsingu en einmitt hann.

„Vilhjálmur þekkir allavega þessa ellilífeyrisþega sem ort er um. Ég vil hvetja sjálfstæðismenn til að kjósa Vilhjálm í öruggt sæti í komandi prófkjöri og sérstaklega eldri borgara. Okkur veitir ekki af að eiga öflugan málsvara eins og Vilhjálm á þingi.“