Ótrúleg orð féllu um Sigríði Andersen – Kolbrún húðskammar dónana á netinu

„Þeir sjá það örugglega ekki sjálfir, en skítkastið sem þeir grípa til sýnir glöggt að mikil vansæld býr innra með þeim,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir í leiðara Fréttablaðsins í dag.

Þar skrifar Kolbrún um umræðuna á netinu, ekki síst í athugasemdakerfum fjölmiðla þar sem hún á það til að verða óvægin. Kolbrún birtir dæmi úr athugasemdakerfi ónefnds fjölmiðils þar sem Sigríður Á. Andersen, þingkona Sjálfstæðisflokksins, fékk það óþvegið.

Eins og flestum er kunnugt hefur Sigríður talað nokkuð afdráttarlaust fyrir því að of harðar aðgerðir séu í gildi hér á landi vegna kórónuveirunnar. Með því hefur hún ekki skapað sér vinsældir hjá öllum.

„Hvað gefur einstaklingum rétt til að kalla aðra manneskju „aula“ – „aumkunarverða kellingu“ – „kvensnift“ – „fyrirlitlega manneskju“. Allt eru þetta orð sem féllu nýlega á athugasemdakerfi fjölmiðils,“ segir Kolbrún og bætir við að orðin hafi beinst að Sigríði.

Hún segir að Sigríður sé sannarlega ekki ein um þá skoðun að of hart hafi verið gengið fram. „En ekki þora allir að setja þær skoðanir jafn skilmerkilega fram og hún. Margir kjósa svo einfaldlega að þegja, enda er það þægilegast,“ segir hún.

Kolbrún segir að í aðgerðum sem hafa áhrif á lífsafkomu fólks, skaði andlega heilsu of margra og valdi ýmiss konar tjóni sé mikilvægt að einhverjir standi lýðræðisvaktina, spyrji spurninga og gagnrýni.

„Það er illa komið þegar fólk þorir ekki lengur að segja skoðun sína og spyrja spurninga af ótta við ofsafengin viðbrögð. Og ofsafengin eru þau svo sannarlega – eins og Sigríður Á. Andersen hefur fengið að reyna, en ekki er langt síðan hún var í athugasemdakerfi beðin um að drepa sig. Ekki verður séð að Sigríður kippi sér upp við þann viðbjóð sem reglulega er hellt yfir hana af ofstopafólki á netinu. Hún virðist hafa óvenjulega sterk bein og það er vel. Ekki veitir af,“ segir hún.

Kolbrún segir að það eigi að takast á um sóttvarnaaðgerðir vegna COVID-19 en ekki tölta á eftir þríeykinu með hlýðnisvipinn blýfastan á andlitinu.

„Það verður að spyrja krefjandi spurninga um það af hverju þessi og hin tilskipunin þyki svo nauðsynleg. Fjöldi fólks, þar á meðal ungmenni, þjáist vegna þeirra hafta sem sett hafa verið á. Einstaklingar horfa fram á gjaldþrot, sumir þegar orðnir gjaldþrota, og atvinnuleysi eykst. Mannréttindi fólks hafa síðan verið verulega skert. Vegna alls þessa er bráðnauðsynlegt að spyrja spurninga og gagnrýna. Um leið er gott að hafa í huga að þegar COVID-aðgerðir verða gerðar upp um allan heim, þá er langlíklegast að niðurstaðan verði sú að farið hafi verið offari.“

Kolbrún segir að lokum að fólk þurfi svo sannarlega ekki alltaf að vera sammála í hinum ýmsu málum og hollt sé að rökræða.

„Nútíminn er hins vegar merkilega lítið gefinn fyrir rökræður. Upphrópanir og svívirðingar þykja alltof oft virka betur, samanber dónana á netinu. Þeir sjá það örugglega ekki sjálfir, en skítkastið sem þeir grípa til sýnir glöggt að mikil vansæld býr innra með þeim. Þeir vilja gera sig gildandi í umræðunni en kunna enga aðra aðferð en að svívirða þann sem þeir eru ósammála. Um leið eru þeir að dæma sjálfa sig sem ómerkinga. Aumt er þeirra hlutskipti!“