Hringbraut skrifar

Ótrúleg frásögn af fórn ingveldar sem breytti íslandssögunni: varpar ljósi á mikilvægi mæðra

22. febrúar 2020
16:48
Fréttir & pistlar

Ingveldur Guðrún Ólafsdóttir er móðir eina Óskarsverðlaunahafa Íslendinga, Hildar Guðnadóttur. Ingveldur segir að hún hafi ekki afrekað neitt sérstakt um ævina. Þegar betur er að gáð er það auðvitað afreka að hafa alið upp snilling um leið varpar þessi stutta frásögn hér fyrir neðan hvað mæður skipta gríðarlega miklu máli. Það er nefnilega alls ekki víst að Hildur hefði staðið uppi á sviði í Los Angeles ef ekki væri fyrir ótrúlegar fórnir móður hennar sem fjallað er um á Lifðu núna.

Ingveldur, sem er menntuð söngkona, hafði flutt til Toronto til að stunda þar söngnám og tók Hildi með sér, sem þá var aðeins fjögurra ára gömul. Þegar þær mæðgur komu til baka hafði Lánasjóðurinn breytt reglunum og Ingveldur átti ekki lengur fyrir skólagjöldunum. Hún þurfti því að rjúka heim, redda sér vinnu og einnig taka bankalán. Hún fékk vinnu sem þáttastjórnandi á RÚV aðeins 27 ára gömul. Móðir hennar passaði Hildi. En ein vinna var ekki nóg svo hún vann einnig í bókabúð í Kópavogi til að drýgja tekjurnar og söng í brúðkaupum og jarðarförum.

En Hildur þurfti að eignast selló sem hljómaði betur en það sem hún fékk lánað frá tónlistarskólanum.  

„Bíllinn var engin lúxuskerra en ég hafði ætlað mér að selja hann upp í nýrri bíl og taka líka lán til þess. En eftir nokkra umhugsun komst ég að því að það væru betri kaup að fjárfesta í sellói en bíl af því afföllin af bílnum væru svo mikil en sellóið myndi auka verðgildi sitt. Og í dag er ljóst að sú ákvörðun var rétt,“

segir Ingveldur ánægð með þá fjárfestingu sína sem var auðvitað risafjárfesting í manneskjunni sjálfri þegar upp var staðið.

„Ég leit sannarlega ekki á það sem fórn að selja bílinn á sínum tíma. Ég gerði það með glöðu geði því mér þykir mikilvægt að styðja börnin, sama hvert hugur þeirra stefnir.“

Þá segir á síðunni Lifðu núna:

„Íslendingar geta sannarlega verið þakklátir þessari hugrökku konu sem tók ábyrgð á eigin lífi og hamingju og forgangsraðaði rækilega. Fyrir hennar tilstuðlan er Ísland nú komið enn betur á kortið en áður var, sama hvað hver segir! Það var samt ekki tilgangurinn þegar bíllinn var seldur fyrir selló.“