Ótrúleg atburðarás

29. maí 2020
17:25
Fréttir & pistlar

Í þessari viku varð þjóðin vitni að ótrúlegri atburðarás þegar Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, talaði hreint út um ótrúlegan hroka og dónaskap heilbrigðismálráðherra. Svandís Svavarsdóttir kom fram í viðtölum og hélt því fram að Íslensk erfðagreining væri að ráðast í stórverkefni á Keflavíkurflugvelli vegna skimunar. Ráðherrann hefði reyndar ekki haft fyrir því að ræða málið við Kára eða samstarfsmenn hans. Hún hafði birst í lokaþætti sóttvarnarlæknis og félaga til að kveðja með blómaafhendingum og þakkarorðum. Svandís fór um víðan völl og þakkaði hinum og öðrum sem höfðu lagt gott eitt til bráttunnar við veiruna - en hún “gleymdi” að nefna Íslenska erfðagreiningu sem vann stórvirki í baráttunni við vágestinn. Kári og félagar í Vatnsmýrinni voru ekki nefndir á nafn frekar en þeir hefðu hvergi komið nærri. Enginn getur látið sér til hugar koma að Svandís hafi ekki munað eftir þeim. En af einhverjum ástæðum hentaði ráðherranum ekki að sýna þeim viðeigandi virðingu.

Kára var nóg boðið. Hann mætti í Kastljós daginn eftir og dró Svandísi Svavarsdóttur sundur og saman í háði, eins og honum er einum lagið. Gagnrýni hans að þessu sinni var fullkomlega réttmæt og verðskulduð því framkoma ráðherrans var með öllu óboðleg og lýsti fyrst og fremst hroka.

Til að viðunandi árangur geti náðst við skimun komufarþega til Keflavíkur þarf atbeina Íslenskrar erfðagreiningar. Kári tilkynnti í fyrrnefndu sjónvarpsviðtali að fyrirtækið kæmi hvergi nærri ef verkefnið yrði undir stjórn heilbrigðismálaráðuneytisins. Hann virðist ekki treysta Svandísi - sem ekki er von.

Í gær brást forsætisráðherra þannig við þessum tíðindum að hún tók forsvar málsins af vinkonu sinni Svandísi og ber nú ábyrgð á því sjálf. Hún fól svo sóttvarnarlækni málið en Íslensk erfðagreining treystir honum og landlækni og getur unnið þetta mikilvæga verkefni með þeim.

Með þessu hlaut Svandís Svavarsdóttir makleg málagjöld. Formaðurinn í hennar eigin flokki gat ekki einu sinni varið frekju og hroka hennar. Svandísi var einfaldlega fórnað í þessu máli. Því ber að fagna vegna mikilvægis þess að vel takist til um skimun komufarþega á Keflavíkurflugvelli þar sem Íslensk erfðagreining mun gegna lykilhlutverki.

Sumir stjórnmálamenn eiga það til að vilja upphefja sjálfa sig á kostnað flokka sinna og jafnvel heilu ríkisstjórnanna. Það hefur Svandísi stundum tekist enda þráir hún athygli meira en flestir aðrir stjórnmálamenn. En nú var félögum hennar nóg boðið.

Dramb er falli næst, segir máltækið. Vonandi lærir Svandís sína lexíu af þessari sneypuför.
Hún mun trúlega ekki stinga höfðinu í gin ljónsins alveg á næstunni.