Össur spáir í spilin: Svona gæti fjórða bylgjan fellt ríkisstjórnina

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra og ritstjóri, segir að fjórða bylgja Covid gæti gjörbreytt pólitískri stöðu stjórnarflokkanna. „Fyrir nokkrum dögum var borðleggjandi að þeir héldu meirihluta í haustkosningunum. Það er ekki jafnvíst í dag,“ segir Össur í ítarlegri færslu á Facebook þar sem hann spáir í spilin.

„Viðbrögð ríkisstjórnar á allra næstu dögum við fjórðu bylgjunni geta sett þá stöðu í algert uppnám.“

Össur segir ljóst að ríkisstjórnin sé ekki samstiga gagnvart sóttvarnaraðgerðum. Þeir sem hafi efasemdir um það geti farið yfir ummæli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis síðustu daga: „Hann hefur beisikally tjáð vonbrigði sín með að innan ríkisstjórnarinnar ríki ekki einhugur um að fylgja ítrustu ráðum sóttvarnaryfirvalda. Svandís Svavarsdóttir hóf formlega kosningabaráttu með því að segja þjóðinni að hún, og VG, hefðu þurft að yfirvinna andstöðu Sjálfstæðisflokksins – einkum Áslaugar Örnu – við að framfylgja ráðleggingum Þórólfs og koma böndum á Covid.“

Össur segir athyglisvert að VG hafi gert farsælar niðurstöður í glímunni við Covid að prófsteini á ríkisstjórnina. „Undirtónn kosningaauglýsinga VG er að það sé forystu Katrínar Jakobsdóttur og VG að þakka að svo virtist sem plágan væri fjötruð. Sú söguskýring VG er í uppnámi ef fjórða bylgja faraldursins nær sér á strik.“

Hann segir að viðbrögð næstu daga gætu því ráðið úrslitum um niðurstöðu haustkosninganna. „Ætlar ríkisstjórnin að taka sjensinn á því að útihátíðir breytist í ofurdreifara á sóttkveikjunni? Hvor sleggjanna vinnur ef þær renna saman um hvort banna eigi þjóðhátíðina í Eyjum, Svandís eða Áslaug Arna?“