Össur: „Sjálf­stæðis­flokkurinn er kominn fram yfir síðasta sölu­dag“

Ríkis­stjórnin virðist kol­fallin og tveir sigur­vegarar eru í kosninga­bar­áttunni fyrir Al­þingis­kosningarnar á laugar­daginn að mati Össurar Skarp­héðins­sonar fyrr­verandi utan­ríkis­ráð­herra. Það eru Sam­fylkingin og Fram­sóknar­flokkur.

Í löngum pistli á Face­book-síðu sinni fer Össur yfir kosninga­bar­áttuna. Hann segir allt hafa stefnt í að ríkis­stjórnin héldi velli en nú sé öldin önnur.

„Í dag er staðan allt önnur. Ríkis­stjórnin virðist kol­fallin. Tveir helstu flokkar hennar, VG og Sjálf­stæðis­flokkur, eru að sigla inn í sögu­lega út­reið, einkum Sjálf­stæðis­menn. Ef þeir standa uppi með 20-22 prósent er flokkurinn endan­lega fallinn um þrjár deildir undir for­ystu Bjarna,“ segir Össur.

Lit­laus og mis­heppnuð kosninga­bar­átta VG

Að mati Össurar eru Vinstri grænir með „við­kunnan­legasta og vin­sælasta for­sætis­ráð­herra vorra daga“ en hefur háð „lit­lausa og eina mis­heppnuðustu kosninga­bar­áttu síðari tíma.“ Hann spyr hvar Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra og for­maður VG sé. „Það er eins og hún hafi týnst í kosninga­bar­áttunni.“

Hann segir við­búið að VG og Sjálf­stæðis­flokkurinn verði fyrir á­falli á kosninga­nótt. Séu kannanir sann­spáar muni hvorki Katrín né Bjarni hafa „nokkra inni­stæðu til að krefjast for­ystu­hlut­verks við myndun ríkis­stjórnar.“

Katrín er í erfiðri stöðu að mati Össurar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Það sé erfitt fyrir Katrínu að fara fram á að halda stól sínum, sem hafi nánast verið sjálf­gefið við upp­haf kosninga­bar­áttunnar og hún gæti þá valið milli á­fram­haldandi stjórnar eða mið-vinstri stjórnar.
Össur segir allt hafa stefnt í að Sósíal­ista­flokkurinn yrðu senu­þjófar kosninga­bar­áttunnar en flokkurinn hafi dalað á síðast­liðnum dögum. Þeir hafi þó gert út af við mögu­leika VG að halda sæti sínu sem for­ystu­flokkur í ríkis­stjórn.

Sósíal­istar dala en Sam­fylking og Fram­sókn sækja í sig veðrið

Sam­kvæmt skoðana­könnun sem birtist í Frétta­blaðinu í dag nær Gunnar Smári Egils­son ekki inn í Reykja­vík. „Þá verða ör­lög flokksins á þingi hin sömu og í Reykja­víkur­borg. Hann mun týnast og gufa upp og enginn muna að hann er á þingi, fremur en í borgar­stjórn. Gunnar Smári er ein­fald­lega hjartað, lífið og sálin í flokknum.“

Gunnar Smári kemst ekki á þing sam­kvæmt nýrri könnun Frétta­blaðsins.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Sé litið til sigur­vegara kosninga­bar­áttunnar segir Össur það vera tvo flokka, Sam­fylking og Fram­sóknar­flokkur. Sam­fylkingin hafi staðið fyrir vel út­færðri kosninga­bar­áttu þar sem Krist­rún Frosta­dóttir hafi komið fram á sjónar­sviðið sem „mesta stjórn­mála­efni sem fram hefur komið á þessari öld.“

Það sé til marks um á­hrif hennar að hún sé „ó­verð­skuldað ötuð auri dag út og inn af Skrímsla­deild Sjálf­stæðis­flokksins sem er skít­hrædd við at­gervi Krist­rúnar og aug­ljóst fram­tíðar­hlut­verk.“ Staða Sam­fylkingarinnar sé nú að Logi Einars­son for­maður „sé við vissar að­stæður í kast­færi við stjórnar­ráðið.“

Krist­rún er stjarna kosninga­bar­áttunnar segir Össur.

Fram­sókn hefur háð flotta kosninga­bar­áttu að mati Össurar og tekist að stíga út úr skugga hinna stjórnar­flokkanna. Hann berjist nú við Sam­fylkinga um að verða næst stærsti flokkur landsins á eftir Sjálf­stæðis­flokki. Engum standi stuggur af því að Sigurður Ingi Jóhanns­son for­maður verði for­sætis­ráð­herra. Takist flokknum að koma Ás­mundi Einari Daða­syni fé­lags­mála­ráð­herra inn í Reykja­vík fari hann á miklu flugi inn í komandi kjör­tíma­bil.

„Sjálf­stæðis­flokkurinn er kominn fram yfir síðasta sölu­dag“

„Á ör­stuttum tíma hefur því kosninga­bar­átta – sem í stórum dráttum hefur verið inni­halds­ríkari og mál­efna­legri en um langt skeið – gjör­breytt stöðunni. Merki­legasta niður­staðan er kannski sú, að Sjálf­stæðis­flokkurinn er kominn fram yfir síðasta sölu­dag sem af­gerandi for­ystu­flokkur og ekkert sem bendir til að hann nái aftur fyrri stöðu. Reyk­víska þróunin, þar sem Sjálf­stæðis­flokkurinn hefur breyst í “einn af hinum” virðist nú hafa yfir­færst á lands­vísu,“ segir utan­ríkis­ráð­herrann fyrr­verandi.